Virðir Gylfa fyrir að stíga til hliðar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Árni Sæberg

„Fyrstu viðbrögð eru bara þau að það er gott að þetta sé komið á hreint,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, inntur eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, að bjóða sig ekki fram til endurkjörs á þingi Alþýðusambandsins í október.

„Ég held það sé gott fyrir hreyfinguna að þurfa ekki að fara í uppgjör í haust og ég virði Gylfa fyrir að stíga fram nú. Það gefur okkur tíma til að endurskipuleggja okkur og vinna saman fram að næsta þingi,“ segir Ragnar. 

Gylfi hefur verið forseti Alþýðusambandsins frá árinu 2008 en hann hefur starfað hjá ASÍ frá árinu 1989.

Aðspurður segist hann ekki líta svo á að hann hafi átt þátt í að flæma Gylfa úr starfi. „Ég held að menn geri sér grein fyrir því að þegar þú nýtur ekki stuðnings stærstu félaganna þá hljóti menn að hugsa sinn gang.“ Nýr forseti þurfi að hlusta á félögin og þær kröfur um breytingar sem hafa verið í samfélaginu. Gylfa hafi ekki tekist að vinna með þær breytingar sem orðið hafa í stjórn stéttarfélaganna á undanförnum árum.

Þá segir Ragnar að gríðarlegar áskoranir standi frammi fyrir verkalýðshreyfingunni. Úrskurðir kjararáðs og launaskrið efsta lagsins í samfélaginu geri það að verkum að fram undan séu erfiðustu kjarasamningar verkalýðshreyfingarinnar fyrr og síðar.

Gylfi og Ragnar, fyrir miðju, á fundi í vor þar ...
Gylfi og Ragnar, fyrir miðju, á fundi í vor þar sem tilkynnt var að karasamningum ASÍ og SA yrði ekki sagt upp. Hanna Andrésdóttir

Ragnar segist líta á það sem hlutverk sitt að koma að því að finna arftaka Gylfa. „Það er mín draumasýn að það komi einstaklingur sem hlusti á félagsmenn og hina nýju orðræðu en geti líka sameinað þá sem hafa verið fylgjandi forsetanum. Svo verður bara að sjá hvort það tekst.“

Nafn Drífu Snædal, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, hefur jafnan borið á góma þegar rætt er um mögulegan arftaka Gylfa Arnbjörnssonar í formannsstól Alþýðusambandsins. Þrátt fyrir tal um utanaðkomandi formannsframboð segir Ragnar aðspurður að Drífa gæti orðið sterkur kandídat. Það sé þó ótímabært að ræða nöfn eins og staðan er nú.

Á þingi Alþýðusambandsins í október verður nýr formaður kjörinn en auk þess eru kosnir tveir varaforsetar sambandsins. Hefð er fyrir að formenn aðildarfélaga ASÍ gegni þeim embættum, en Ólafía B. Rafnsdóttir, fyrrverandi formaður VR, var til að mynda fyrsti varaforseti sambandsins. Hún sagði af sér sem slíkur eftir að hafa beðið lægri hlut gegn Ragnari í formannskosningu VR árið 2013.

Ragnar segir koma til greina að bjóða sig fram í það embætti. Það velti þó á hverjir verða í framboði. „Ef formaður ASÍ verður karl tel ég til dæmis rétt að fyrsti varaforseti verði kona.“

mbl.is