Dagur í 17 ára fangelsi fyrir manndráp

Dagur Hoe Sigurjónsson hefur verið dæmdur fyrir manndráp og tilraun …
Dagur Hoe Sigurjónsson hefur verið dæmdur fyrir manndráp og tilraun til manndráps. Ljósmynd/Árni Sæberg

Dagur Hoe Sigurjónsson hefur verið fundinn sekur um manndráp og manndrápstilraun og hefur verið dæmdur til að sæta 17 ára langri fangelsisvist. Dagur var ákærður fyrir að hafa orðið Albananum Kelvis Sula að bana með hnífstungu á Austurvelli aðfaranótt 3. desember á síðasta ári. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur rétt í þessu.

Þá var hann einnig ákærður fyrir manndrápstilraun, en hann réðst einnig á Elio Hasani. Sá var útskrifaður af sjúkrahúsi fljótlega eftir árásina.

Dagur neitaði sök við þingfestingu málsins og bar við minnisleysi við aðalmeðferð þess. Sagði hann að mennirnir tveir hefðu veist að honum og veitt honum höfuðhögg. Eftir höfuðhöggið kveðst hann ekki muna hvað gerðist.

Verjandi Dags sagði vankanta á rannsókn málsins og skort á rannsóknar- og sönnunargögnum eiga að leiða til sýknu hans. Aftur á móti sagði saksóknari engan vafa ríkja um sekt Dags og fór fram á 18 ára fangelsisrefsingu.

Auk fangelsisvistarinnar er Degi gert að greiða rúmar fimm milljónir króna í sakarkostnað. Þá ber honum að greiða móður Sula miskabætur að fjárhæð rúmlega fjórar milljónir króna og föður Sula rúmlega þrjár milljónir. Þá ber honum að greiða Hasani 1,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka