Drífa útilokar ekki framboð

Drífa Snædal.
Drífa Snædal. mbl.is/Ófeigur

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, útilokar ekki að bjóða sig fram til formennsku í Alþýðusambandinu. Í samtali við mbl.is segist hún ekki hafa tekið neina ákvörðun um það, en hún muni hugsa málið.

Nafn Drífu hefur komið upp í umræðunni um arftaka Gylfa Arnbjörnssonar í embætti forseta, sem og nafn Aðalsteins Á. Baldurssonar, formanns Framsýnar á Húsavík, en hann segist í samtali við Morgunblaðið í dag ekki ætla fram.

Drífa játar, aðspurð, að margir hafi komið að máli við hana bæði innan Starfsgreinasambandsins og víðar úr hreyfingunni. „Ég reikna ekki með að taka neina ákvörðun fyrr en í haust,“ segir Drífa en kosið verður um formann á þingi ASÍ í október.

Þegar hefur Stefán Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, boðið sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert