Ekkert erindi vegna dýrareglugerðarinnar

Ætli þennan hvutta langi á kaffihús? Leyfa má dýr í …
Ætli þennan hvutta langi á kaffihús? Leyfa má dýr í sama rými og kælir eru með pökkuðum matvæli og tilreiða má tilbúin matvæli bak við afgreiðsluborð. AFP

Engin veitingastaður eða kaffihús í Reykjavík hefur tilkynnt heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að þeir hyggist heimila hunda eða ketti í sínum húsakynnum frá því að Matvælastofnun gaf út leiðbeiningar með reglugerð sem heimilar dýr á veitinga- og kaffihúsum. Þetta segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Eitt af síðustu embættisverkum Bjartar Ólafsdóttur í embætti umhverfisráðherra var að leyfa dýrahald á kaffihúsum. Þeir eigendur kaffihúsa í Reykjavík sem hugðust í kjölfarið heimila gæludýr gagnrýndu hins vegar fljótt að illmögulegt væri að uppfylla skilyrði heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrigðiseftirlitið taldi lögin hins vegar óskýr og óskaði eftir leiðbeiningum frá Matvælastofnun um túlkun reglugerðarinnar, sem stofnunin sendi frá sér í síðasta mánuði.

„Með þessum leiðbeiningum sem að við kölluðum eftir þá er búið að liðka þetta til,“ segir Óskar. „Við höfum þó ekki fengið neitt erindi eftir að leiðbeiningarnar komu.“

Ekki kókflaska í kæli leyfileg

Nokkrir kaffihúsaeigendur sem mbl.is ræddi við töldu nýju leiðbeiningarnar óskýrar. Björn Hauks­son, eig­anda Kaffi Lauga­lækj­ar, sem ætlaði að heim­ila hunda á kaffi­húsi sínu í vetur sagði í samtali við mbl.is að hann hefði lesið yfir leiðbeiningarnar og fannst þær jákvæðar. Bjarni kvaðst þó ekki vera komin á stað á nýjan leik, heldur ætlaði hann að sjá til hvort að leiðbeiningarnar breyttu einhverju.

Óskar segir leiðbeiningarnar skýra reglugerðina og liðka. „Eins og þetta var skilið eftir í reglugerðunum þá mátti ekki einu sinni vera kókflaska í kæli,“ segir hann. Leiðbeiningarnar segi hins vegar að heimilt sé að vera með pökkuð matvæli í kæliborði í veitingasalnum. Eins megi meðhöndlun matvæla nú eiga sér stað bak við afgreiðsluborð samkvæmt leiðbeiningunum.  

„Þetta var þannig eins og orðanna hljóðan var í reglugerðinni og matvælareglugerðinni að ekki mætti vera dýr í sama rými og verið væri að geyma matvæli, jafnvel þó að þau væru í lokuðum umbúðum. Það er búið að rýmka þetta allt saman,“ segir Óskar.

Má meðhöndla matvæli bak við afgreiðsluborð

Dýrin mega ekki komast bak við afgreiðsluborðið, en meðhöndlun matvæla má nú eiga sér þar stað þó að dýr fái að í veitingasalnum. „Það er búið að opna fyrir það,“ segir hann. Er í leiðbeiningunum tilgreint að með meðhöndlun sé átt við samsetningu tilbúinna matvæla s.s. samloku, salats, hitun tilbúinna matvæla sem ekki er verið að elda frá grunni, skömmtun á kökum, brauðmeti og öðrum réttum. Óskar bendir þó á að ekki megi vera galopið inn í eldhús.

Bjór á dælu, kaffibaunir og te má hins vegar geyma og afgreiða í sama rými og dýrin hafa aðgang að.

Þeir staðir sem bjóða upp á sjálfsafgreiðslu á matvælum, t.d. með því að hafa hlaðborð eða salatbar, mega ekki heimila dýr í þeim hluta staðarins. „Þetta þýðir að það má ekki hafa salatbar frammi sem að dýrin geta hlaupið í kringum og annað því um líkt,“ útskýrir Óskar.

Rekstraraðili ber sömuleiðis ábyrgð á að matvælin séu tryggð fyrir mengun af völdum dýranna og þurfi að vera sýnilegar reglur sem þar um. „Það þurfa að vera skilgreind viðbrögð við því hvað eigi að gera ef dýr komast í snertingu við matvæli og slíkt ber að skrá, þannig að þetta er smá umhirða fyrir rekstraraðila.

Þá er líka núna heimilt að brynna dýrum úr ílátum sem eigandi hefur með sér, eða sem rekstraraðili leggur til,“ segir Óskar, en kveður þvott þeirra íláta þó verða að vera aðskilinn þvotti á matarílátum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert