Hæstiréttur snýr við meiðyrðadómi

Bergvin Oddsson.
Bergvin Oddsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur sýknað fyrrverandi stjórnarmenn Blindrafélagsins, þau Hall­dór Sæv­ar Guðbergs­son, Baldur Snæ Sig­urðsson, Rósu Maríu Hjörv­ar, Lilju Sveins­dótt­ur, Guðmund Rafn Bjarna­son og Rósu Ragn­ars­dótt­ur af meiðyrðakröfu Bergvins Oddssonar, fyrrverandi formanns Blindrafélagsins.

Berg­vin var formaður frá ár­inu 2014 og þar til stjórn fé­lags­ins samþykkti van­traust á hann í sept­em­ber 2015. Í van­trausts­yf­ir­lýs­ing­unni sagði að Berg­vin hefði „vélað ung­an fé­lags­mann [Blindra­fé­lags­ins] til að leggja allt sitt spari­fé í fast­eigna­brask hon­um tengt“.

Berg­vin stefndi stjórn­ar­mönn­um fyr­ir ærumeiðandi um­mæli og krafðist þess að um­mæl­in yrðu dæmd dauð og ómerk og dæmdi héraðsdóm­ur Berg­vin í vil í júlí í fyrra. Þá var stjórn­ar­mönn­un­um fyrr­ver­andi gert að greiða Berg­vin 900 þúsund krón­ur í miska­bæt­ur með vöxt­um og 750 þúsund krón­ur í máls­kostnað. 

Stjórnarmennirnir fyrrverandi áfrýjuðu til Hæstaréttar sem sneri í dag úrskurði Héraðsdóms við. Í dómnum segir að þrátt fyrir að stjórnarmennirnir hefðu tekið óþarflega sterkt til orða með hinum umdeildu ummælum væru þau ekki talin hafa farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins samkvæmt 73. grein stjórnarskrárinnar.

Í málsvörn sexmenningana kom fram að um gildisdóm væri að ræða og féllst Hæstiréttur á það. Málskostnaður í héraðsdómi og Hæstarétti fellur niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert