Opnar á valkvæð veggjöld

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var fyrsti ræðumaður samgönguþings.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var fyrsti ræðumaður samgönguþings. mbl.is/Gunnlaugur

Ráðast þarf í fleiri umfangsmikil verkefni á sviði vegaframkvæmda og kemur til greina að hefja gjaldtöku af afnotum nýrra mannvirkja á þjóðveginum. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á samgönguþingi í dag.

Ráðherrann boðaði frekari átak í samgöngumálum, en sagði jafnframt að það ætti ekki að vera í stöðugu átaki heldur eingöngu til þess að ná að vinna upp „það sem setið hefur á hakanum frá 2010.“

Skoða þarf tekjustofn ríkisins af bílanotkun vegna þess að tekjur ríkisins af bifreiðanotkun hefur dregist saman vegna umhverfisvænni bifreiða og mun sú þróun líklega halda áfram, sagði Sigurður Ingi. Hann bætti við að þess vegna þarf að leita leiða til þess að fjármagna framtíðarmannvirki.

Í þessu samhengi  nefndi ráðherrann sem dæmi mögulega gjaldtöku á einstökum mannvirkjum þjóðvegsins, en að ökumenn gætu þá valið að aka eldri leið ef þeim hugnast ekki að greiða umrædd gjöld. Sigurður Ingi vísaði til ákveðinna verkefna vegna þessa, nefndi hann meðal annarra verkefna sundabraut og nýja brú yfir Ölfusá.

Með framlögum ríkisins ásamt innheimtum afnotagjöldum mannvirkja taldi ráðherrann að hægt yrði að veita hátt í 300 milljarða króna til vegamála á næstu 5 til 7 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert