Í vímu yfir á rauðu ljósi

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ökumaður vélhjóls, sem var undir áhrifum áfengis og fíkniefna, ók gegn rauðu ljósi og á bifreið á mótum Geirsgötu og Tryggvagötu um ellefuleytið í gærkvöldi. Ökumaðurinn er sviptur ökuréttindum og var með fíkniefni í fórum sínum.

Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar og síðan vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Skömmu áður hafði lögreglan stöðvað bifreið við gömlu Hringbrautina en sá er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna, akstur án réttinda og vörslu fíkniefna.

Um  tvö í nótt var tilkynnt umumferðaróhapp/bílveltu á Reykjanesbraut við Kaplakrika. Fimm voru í bílnum og allir komnir út að sögn þess sem tilkynnti um bílveltuna. Þeir sem voru í bílnum voru farnir af vettvangi áður en lögregla kom en lögreglumenn náðu meintum ökumanni sem reyndist vera allsgáður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert