Engar töfralausnir til

Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði.
Una Jónsdóttir, deildarstjóri leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði.

Deild leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði telur að ekki séu til neinar töfralausnir við þeim vanda sem steðji að fólki á leigumarkaði. Að öllum líkindum þurfi að koma fram með ólíkar lausnir fyrir ólíka hópa.

Ef styðjast eigi við erlendar fyrirmyndir sé mikilvægt að aðlaga þær íslenskum aðstæðum. Of hæg uppbygging á hagkvæmu húsnæði sé eitt stærsta vandamálið hér á landi. Skortur á húsnæði hækki verð og auki óvissu. Þetta kom fram í máli Unu Jónsdóttur, hagfræðings og deildarstjóra leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði, á opnum fundi Eflingar á Grand hóteli í vikunni.

Efni fundarins var mögulega aðkoma lífeyrissjóðanna að leigumarkaði. Frummælandi var Ólafur Margeirsson hagfræðingur, sem búsettur er í Sviss og miðlaði hann rannsóknum og reynslu sinni þaðan. Una tók undir margt í erindi Ólafs í pallborðsumræðum og fagnaði því að umræða fari fram um nýjar lausnir á leigumarkaði, að því er segir í fréttatilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

Lausn á leiðinni fyrir efnaminni 

Una sagði að þótt ekki yrði farin sú leið að setja þak á leigu hér á landi, þar sem það gæti mögulega leitt til minna framboðs af leiguhúsnæði, væri vísir að þeirri aðferð að verða að veruleika fyrir hluta leigjenda með tilkomu almenna íbúðakerfisins.

Áætlað er að á þriðja þúsund slíkar íbúðir rísi á næstunni m.a. með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga.

„Það kemur mjög skýrt fram í lögunum um almennar íbúðir að leiga fyrir þessar íbúðir eigi að jafnaði ekki að fara umfram fjórðung heildartekna leigjenda. Þarna erum við því komin með lausn á leigumarkaði fyrir efnaminni fjölskyldur og einstaklinga þar sem leigan er í samræmi við greiðslugetu. Tekið skal fram að það geta ekki allir gengið inn í þetta kerfi, þetta er fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum,“ er haft eftir Unu í fréttatilkynningu.

Einnig vísaði Una til þess að fjöldi félagslegra íbúða í kerfi sveitarfélaganna hafi dregist verulega saman á síðustu árum. Nauðsynlegt væri að setja kraft í uppbyggingu á félagslegu húsnæði.

Una bætti við að aðkoma lífeyrissjóðanna að útleigu íbúðarhúsnæðis yrði ánægjulegt skref en sló þó þann varnagla að sumir gætu átt erfitt með að ráða við að greiða leiguverðið þar sem leigan í íbúðum lífeyrissjóðanna yrði örugglega ákveðin á markaðslegum forsendum. Áfram þurfi því að veita stofnframlög til uppbyggingar á leiguhúsnæði fyrir fólk undir ákveðnum tekju- og eignamörkum, þar sem kvaðir eru um að leiga fari að jafnaði ekki yfir ákveðið hlutfall af tekjum íbúanna.

Aðstæður erlendra ríkisborgara bágbornar

Aðstæður erlendra ríkisborgara á leigumarkaði bar einnig á góma á fundinum og tók Una undir athugasemdir fundargesta um að þær væru bágbornar.

Una vakti jafnframt máls á því að upplýsingar um leigumarkaðinn og þann stuðning sem leigjendum býðst væru ekki nægilega aðgengilegar innflytjendum. Sterk vísbending um þetta hafi birst í launakönnun Flóabandalagsins þar sem 86% þeirra sem svöruðu könnuninni á pólsku sögðust hvorki þiggja húsnæðisbætur né vaxtabætur. Til stendur að gera bót á þessu með aukinni fræðslu frá Íbúðalánasjóði, sem nýverið tók við umsjón með veitingu húsnæðisbóta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert