Bannað að taka flugnasprey inn á Fan-Zone

AFP

Embætti ríkislögreglustjóra vill benda Íslendingum á sem eru á leiðinni á Fan-Zone-svæðið fyrir leik Íslendinga og Nígeríu á HM í Volgograd að bannað er að taka vökva inn á svæðið. Meðal annars flugnasprey og moskítófælur. Mælt er með vanilludufti í hárið. 

„Nú er spennan öll að magnast fyrir leikinn á eftir og eflaust margir á leiðinni á Fan-Zone. Við bendum öllum sem þangað ætla að það er ekki heimilt að hafa með sér vökva inn á Fan-zone, hann mun verða tekin af fólki við öryggisleit. Þetta á einnig við um flugnasprey og moskítófælur.

Við höfum fengið þau ráð frá heimafólki að til að verjast flugunni dugi vel að setja vanilluduft í hárið og nudda því í hársvörðinn. Blanda því við venjulegt rakakrem - nú eða sólarvörnina - og nudda vel á andlit, hendur og aðra óhulda líkamsparta. Það verður heitt í dag og passið því að drekka vel af vatni - já drekka líka vatn inn á milli! - og að bera reglulega á ykkur sólarvörn,“ segir í færslu á Facebook-síðu ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert