Hótað og rændur síma

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Karlmaður hafði samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu um fjögur í nótt og sagðist hafa verið rændur farsíma er hann hefði verið staddur við Reykjavíkurveg. Þar hafi menn komið að honum og haft í hótunum við hann. Maðurinn var kominn heim til sín þegar hann tilkynnti um atvikið og fóru lögreglumenn þangað til að ræða við hann. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Lögreglan handtók mann í annarlegu ástandi í vesturborginni í nótt en maðurinn var ítrekað búinn að valda íbúum í nágrenninu ónæði með hávaða og látum. Hann er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Kalla þurfti til lögreglu í hús í Norðurmýrinni í nótt vegna ágreinings sem þar kom upp á milli fólks. Á vettvangi fundu lögreglumenn ætluð fíkniefni sem voru haldlögð.

Skömmu fyrir eitt í nótt stöðvaði lögreglan bifreið á Reykjanesbraut við Smáratorg eftir að hafa séð að ökumaðurinn var í símanum án þess að nota handfrjálsan búnað. Í ljós kom að ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann er grunaður um brot á lyfjalögum.

Líkt og flesta daga voru nokkrir teknir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna eða án þess að vera með ökuréttindi.

Klukkan 21:18 var bifreið stöðvuð á Höfðabakka. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, að aka ítrekað sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.

Klukkan 23:45 stöðvaði lögreglan bifreið á Miklubraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og að aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

Klukkan 04:20 var bifreið stöðvuð á Miklubraut við Mörkina. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur. 

Klukkan 04:22 stöðvaði lögreglan bifreið við Lyngás. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert