Ógagnsætt og í bága við stjórnsýsluhætti

Stúdentaráð Háskóla Íslands gagnrýnir vinnubrögð mennta- og menningarmálaráðherra.
Stúdentaráð Háskóla Íslands gagnrýnir vinnubrögð mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Stúdentaráð Háskóla Íslands gagnrýnir harðlega vinnubrögð mennta- og menningarmálaráðherra við skipun í embætti framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Tilkynnt var á vef Stjórnarráðsins í síðustu viku að Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir hefði verið endurskipuð í embættið.

Stúdentaráð gagnrýnir að staða framkvæmdastjóra hafi ekki verið auglýst opinberlega og tekur undir yfirlýsingu Landssamtaka íslenskra stúdenta sem send var út fyrr í vikunni.

„Krafa stúdenta um að auglýsa eigi opinberlega í stöður sem þessar er skýr, og á að gilda í hvert skipti sem ráðningartímabili lýkur.“ Stúdentaráð segir óásættanlegt að mennta- og menningarmálaráðherra hafi farið á bak orða sinna, að í mars hafi hún sagt það stefnu sína að auglýsa stöður sem þessar opinberlega og að ráðningar ættu að fara fram með gagnsæjum hætti.

„Hvorki tilkynning né rökstuðningur hefur verið gefinn, auk þess var ákvörðunin um endurskipun framkvæmdastjóra ekki tilkynnt á stjórnarfundi sjóðsins sem haldinn var 14. júní sl., daginn eftir skipunina, en þar eiga fulltrúar stúdenta sæti. SHÍ telur þetta ekki samrýmast því sem kalla má gagnsætt ferli við ráðningu framkvæmdarstjóra í slíkt embætti og að farið hafi verið í bága viðvandaða stjórnsýsluhætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert