Skert starfsemi ráðuneyta frá klukkan 14

mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast má við raski á starfsemi stjórnarráðsins í dag vegna leik Íslands og Nígeríu í Volgograd. Þá hafa sum ráðuneyti veitt starfsmönnum frí eða „lausa viðveru“, aðeins tvö ráðuneyti loka.

Utanríkisráðuneytið hefur veitt öllu starfsfólki ráðuneytisins frí frá klukkan 14 vegna leiksins í dag, þetta var tilkynnt starfsfólki með tölvupósti, segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. Hann áréttar að allri borgaraþjónustu verði þó sinnt.

Þá verður skert viðvera í dómsmálaráðuneytinu á meðan leikurinn fer fram en lágmarkssímvörslu verður sinnt.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið veitir starfsmönnum sínum frelsi til þess að fylgjast með leiknum í ráðuneytinu eða í nágrenni þess og senda góða strauma til strákana í Volgograd, en ráðuneytinu verður ekki lokað að sögn Kristrúnar Heiðu Hauksdóttur, upplýsingafulltrúa.

Starfsmenn atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins fá ekki frí, en skipulagt er að starfsmenn horfi saman á leik Íslands og Nígeríu í ráðuneytinu. Þórir Hrafnsson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, segir í samtali við mbl.is að ráðuneytinu verði ekki lokað, en að athygli starfsmanna verði líklegast beint að leiknum.

Starfsemi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og  velferðarráðuneytisins verður einnig óbreytt í dag. Lára Björg Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi, segir í samtali við mbl.is að það verði laus viðvera starfmanna í forsætisráðuneytinu frá klukkan 14 í dag, en að ráðuneytið sjálft verði þó opið.

Uppfærsla klukkan 12:30

Hér sagði áður að dómsmálaráðuneytinu yrði lokað eins og upplýsingar mbl.is gáfu til kynna. Leiðrétting barst frá ráðuneytinu þess efnis að ráðuneytið lokar ekki og verður lágmarks símvarsla. Fréttin hefur verið leiðrétt í samræmi við nýjar upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert