Á 120 km/klst á Sæbrautinni

mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði um klukkan 2 í nótt för ökumanns á Sæbraut eftir að bíll hans hafði mælst á 120 kílómetra hraða á klukkustund þar sem 60 km hámarkshraði er í gildi.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og aka ítrekað sviptur ökuréttindum.

Þá handtók lögreglan einnig tvær ölvaðar konur í bíl á Háaleitisbraut rúmlega 3 í nótt. Konurnar eru grunaðar um ölvun við akstur og voru færðar í fangaklefa. 

Í ítarlegri dagbók lögreglunnar þennan morguninn má finna fjölmörg dæmi um að ökumenn hafi verið stöðvaðir vegna gruns um að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. 

Þá hafði lögreglan afskipti af rúmlega þrjátíu manns í Laugardalnum í gærkvöldi og nótt vegna vörslu fíkniefna. Þar fer nú fram tónlistarhátíðin Secret Solstice. Einnig komu þar upp nokkur líkamsárásarmál.

Á hálfum sólarhring, frá klukkan 17 í gær og til 5 í morgun voru 135 mál skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tólf manns voru vistaðir í fangageymslu á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert