Um 2.000 kandídatar útskrifast frá HÍ

Samtals útskrifast 1.964 kandídatar frá Háskóla Íslands í dag með …
Samtals útskrifast 1.964 kandídatar frá Háskóla Íslands í dag með 1.970 prófskírteini. mbl.is/Ómar Óskarsson

Háskóli Íslands brautskráir nærri 2.000 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi í dag í Laugardalshöll og líkt og undanfarin ár verða brautskráningarathafnirnar tvær.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands. 

Við athöfn sem hefst klukkan 10.30 taka kandídatar í framhaldsnámi við útskriftarskírteinum sínum. Alls verða 745 kandídatar brautskráðir og taka við 748 prófskírteinum. Athöfnina sækja þeir sem eru að ljúka framhaldsnámi til prófgráðu, þ.e. meistaranámi og kandídatsnámi, þar á meðal fyrstu nemendurnir sem ljúka námi með MS-gráðu í hagnýtri sálfræði frá Sálfræðideild.

Brautskráning kandídata sem eru að ljúka grunnnámi, þ.e. BA-, B.Ed.- og BS-námi, fer fram á seinni athöfninni sem hefst kl. 14. Alls ljúka 1.219 kandídatar námi á grunnstigi að þessu sinni og taka við 1.222 prófskírteinum. Þeirra á meðal er fyrsti kandídatinn sem lýkur BS-prófi í stærðfræði og stærðfræðimenntun sem verkfræði- og náttúruvísindasvið býður upp á í samstarfi við menntavísindasvið.

Prófskírteini verða afhent í röð eftir fræðasviðum: Félagsvísindasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, menntavísindasvið og verkfræði- og náttúruvísindasvið. Á félagsvísindasviði verða samtals brautskráðir 607, 465 á heilbrigðisvísindasviði, 265 á hugvísindasviði, 340 á menntavísindasviði og 287 á verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Samtals útskrifast því 1.964 kandídatar frá Háskóla Íslands í dag með 1.970 prófskírteini, segir í tilkynningunni.

437 kandídatar brautskráðust frá Háskóla Íslands í febrúar og því nemur heildarfjöldi brautskráðra það sem af er ári 2.401.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert