Íslendingar ofmenntaðir í fiskveiðum

Velferðarráðuneytið.
Velferðarráðuneytið. mbl.is/Eggert

„Þetta er nú sjálfsagt ekki sú frétt sem fær mesta smelli hjá ykkur, en sú sem skiptir mestu máli upp á framtíðina,“ sagði Ásmundur Einar Daðason við upphaf kynningarfundar á greiningu Hagfræðistofnunar á íslenskum vinnumarkaði og skýrslu aðila vinnumarkaðarins um færniþörf á vinnumarkaði í velferðarráðuneytinu í morgun.

Meiri menntunar er þörf í eðlisfræði, verkfræði og stærðfræði, en helst eru Íslendingar ofmenntaðir í fiskveiðum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greiningunni á íslenskum vinnumarkaði, að sögn Sigurðar Björnssonar hjá Hagfræðistofnun. Í spánni er horft til aldurssamsetningar innan atvinnugreina og þau störf sem verða til á næstu árum greind. Skýrsla Hagfræðistofnunar lá annars ekki fyrir kynningarfundinum þar sem hún er enn í prentun.

Formlegt ferli fyrir greininguna

Mat sérfræðingahópsins, sem samanstendur af fulltrúum Alþýðusambandsins, Hagstofunnar, Vinnumálastofnunar og Samtaka atvinnulífsins, er að Ísland sé eftirbátur annarra Evrópuríkja þegar kemur að því að leggja mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði. Slíkar spár hafa verið gerðar um árabil í nágrannalöndum Íslands, til að mynda í Svíþjóð þar sem slík spá er gerð á þriggja ára fresti og í þeirri nýjustu lagt mat á horfur á vinnumarkaði til ársins 2035.

„Þetta hefur verið í skoðun lengi, en það er ekki fyrr en nú á síðustu þremur árum sem þetta hefur verið unnið með markvissum hætti,“ segir Karl Sigurðsson sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun sem kom að gerð skýrslunnar, auk sérfræðinga frá Hagstofunni, Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandinu.

Lagt er til að kostir þess að Hagstofa Íslands fái formlegt hlutverk við tölfræðilega spágerð til langs tíma verði metnir og að settur verði á fót sérfræðingahópur um færnispár. Þá fái starfsgreinanefnd formlegt ráðgefandi hlutverk í spáferlinu.

Í skýrslu aðila vinnumarkaðarins segir að veikleiki sé hversu erfiðlega hafi reynst að bregðast við fyrirséðum vandamálum á vinnumarkaði. Er í því skyni lagt til að sett verði á fót landfærniráð að írskri og finnskri fyrirmynd en slíkt ráð hefði það hlutverk að móta íslenska hæfnistefnu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, veitti skýrslunum móttöku, eða raunar annarri þeirra því hin var enn í prentun. Ásmundur segir gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld taki á málum af festu og ræði við aðila vinnumarkaðarins um næstu skref í því skyni að undirbúa þjóðfélagið sem best fyrir fjórðu iðnbyltinguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert