Rusl í tonnatali hreinsað á Hornströndum

Frá hreinsunarleiðangri helgarinnar.
Frá hreinsunarleiðangri helgarinnar. Ljósmynd/Gauti Geirsson

Þrjátíu og sex tóku þátt í átakinu Hreinsum Hornstrandir um helgina og tíndu fleiri tonn af rusli úr fjörunni í Bolungavík. Um fimmtu hreinsunina var að ræða, en Gauti Geirsson segir mun meira rusl hafa safnast í ár en undanfarið.

„Þetta gekk ótrúlega vel. Framan af vorum við ekki alveg viss um hvernig myndi rætast úr veðrinu og þetta er löng sigling fyrir opnu hafi. Á laugardeginum var frábært veður og við náðum að hreinsa ótrúlegt magn af rusli. Þetta er það mesta sem við höfum séð á svona litlu svæði.“

Varðskip Landhelgisgæslunnar hefur mætt á staðinn og sótt ruslið eftir tiltektina undanfarin þrjú ár en í þetta sinn þurfti það að sinna útkalli. „Við vitum alltaf af því að það geti gerst að varðskipið sé kallað til en plan B var virkjað svo við löbbuðum til baka í Jökulfjörðinn þar sem við vorum sótt.“

Gauti segir að farið verði að sækja ruslið við fyrsta tækifæri og það flutt á Ísafjörð þar sem það verður vigtað og flokkað.  Þá kemur í ljós nákvæmlega um hve mörg tonn af rusli er að ræða, en Gauti segir að undanfarin ár hafi allt að fimm tonn verið tínd en að um talsvert meira magn hafi verið að ræða í þetta sinn.

Gauti vill nota tækifærið og þakka öllum þeim styrktaraðilum sem gera verkefnið mögulegt, en þeir eru Landhelgisgæslan, Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær, Reimar Vilmundarson, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Borea Adventures Iceland, Gámaþjónusta Vestfjarða, VesturVerk, Aurora Arktika, Hótel Ísafjörður og Vesturferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert