23 ljósmæður sagt upp störfum hjá Landspítala

Ljósmæður hafa átt í harðri kjaradeilu við ríkið undanfarna mánuði.
Ljósmæður hafa átt í harðri kjaradeilu við ríkið undanfarna mánuði. Eggert Jóhannesson

23 ljósmæður í um 15 stöðugildum hafa sagt upp störfum á Landspítala síðan kjaradeila ljósmæðra við ríkið hófst í vor. Ein af þeim uppsögnum hefur þegar tekið gildi en 11 uppsagnir til viðbótar munu taka gildi næstu mánaðamót. Aðrar uppsagnir taka gildi í október. Þetta staðfestir Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítala.

Verk­fall ljós­mæðra í formi yf­ir­vinnu­banns á að hefjast um miðjan næsta mánuð, en samn­inga­nefnd­ir ljós­mæðra og rík­is­ins koma til með að funda á fimmtu­dag­inn.

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans, staðfesti að 6 ljósmæður höfðu sagt upp störfum þar í síðustu viku sem taka munu gildi á næstu mánuðum. Þar af munu 3 uppsagnir taka gildi nú um næstu mánaðamót.  

Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir á meðgöngu- og sængurlegudeild, staðfesti að þar hefðu 9 ljósmæður sagt upp störfum frá og með 1. júlí, en í heild hafi 17 ljósmæður sagt upp störfum á deildinni sem munu ýmist hætta störfum á deildinni 1. ágúst eða 1. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert