Kýldi húsráðanda í magann og stakk af

Frá Fáskrúðsfirði. Mynd úr safni.
Frá Fáskrúðsfirði. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Íbúi á Fáskrúðsfirði kom að innbrotsþjófi á heimili sínu í dag. Þjófurinn kýldi húsráðanda í magann og komst svo undan á hlaupum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Austurlandi. 

Lögreglan veitti manninum eftirför en hann ók í burtu á miklum hraða í átt að Breiðdalsvík. Þar setti lögregla upp stöðvunarpóst sem ökumaður bifreiðarinnar sinnti ekki heldur ók hann bifreiðinni fram hjá lögreglubifreiðinni og út af veginum. Ferðin var hins vegar ekki mikil og því slasaðist enginn. 

Tveir voru í bifreiðinni og voru þeir báðir handteknir. Lögreglan á Austurlandi telur að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða og eru mennirnir grunaðir um þjófnaðarbrot á nokkrum stöðum á landinu. 

mbl.is