Sækja örmagna ferðamann

Baldvinsskáli.
Baldvinsskáli. Ljósmynd/ fimmvorduhals.is

Félagar í björgunarsveitinni Dagrenningu eru á leiðinni upp í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi þar sem þeirra bíður örmagna ferðamaður. Að sögn Jóns Hermanssonar, formanns sveitarinnar, hringdi maðurinn eftir hjálp um átta í morgun.

„Hann hafði komist í skálann blautur, hrakinn, kaldur og uppgefinn,“ segir Jón en maðurinn var svo illa haldinn að hann mundi ekki lengur símanúmer sitt sem er merki um að hann var kominn í ofkælingarfasa. 

Björgunarsveitarmennirnir eru á einum bíl og eiga von á því að geta ekið alla leið að skálanum þar sem ferðamaðurinn bíður þeirra. Þetta er þriðja útkall björgunarsveita á Fimmvörðuháls á einum sólarhring.

Jón segir að það hafi snjóað uppi á Fimmvörðuhálsi síðdegis í gær og nótt. „Þetta er blautur snjór og erfitt að ganga. Þetta eru ekki aðstæður fyrir aðra en þrautþjálfað fólk. Síðan bætist við óvenjulegt veður í gær. Illviðri sem fylgdi hávaðarok og úrkoma, þar sem ýmist gekk á með snjókomu eða rigningu,“ segir hann.

Að sögn Jóns er töluverður snjór á Fimmvörðuhálsi enda enn mjög kalt á þessum slóðum. Nánast ekkert hafi hlánað af snjó á þessum slóðum síðan í apríl. „Þetta eru mjög sérstakar aðstæður síðustu sólarhringana,“ segir Jón. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert