Síðustu fóru að sofa klukkan níu í morgun

Hjálmar Örn segir lífið ljúft í 33° gráðunum í Rostov.
Hjálmar Örn segir lífið ljúft í 33° gráðunum í Rostov. Ljósmynd/Aðsend

„Hér er gjörsamlega geggjuð stemning,“ segir Hjálmar Örn Jóhannesson, snappari og skemmtikraftur, í samtali við mbl.is, en hann er staddur í góðra vina hópi í Rostov í Rússlandi þar sem þeir ætla að sjá leik Íslands og Króatíu á eftir. Hjálmar hélt til Rússlands fyrir helgi til þess að sjá leik Íslands og Nígeríu í Volgograd. 

„Maður finnur fyrir svo sterkri samkennd innan íslenska hópsins,“ segir Hjálmar, sem fór ásamt stuðningsmönnum íslenska liðsins í skrúðgöngu á völlinn frá fan zone-inu.  

Hjálmar segir að engan bilbug sé að finna á íslenska hópnum þrátt fyrir vonbrigði í leiknum á föstudag. „Engan veginn, þú getur rétt ímyndað þér að vera hér í hópi tvö til þrjú þúsund Íslendinga og allir að skemmta sér í sól og sumri. Hér var Íslendingapartý í gær langt fram eftir nóttu og síðustu menn fóru í háttinn um klukkan níu í morgun.“

Hjálmar Örn og félagar í Rostov.
Hjálmar Örn og félagar í Rostov. Ljósmynd/Aðsend

Haf af íslenskum treyjum

Hann segir að Rússar styðji íslenska liðið til dáða og víða sé að finna heimamenn í íslenskum treyjum. „Rússar eru allir komnir í íslenskar treyjur. Við getum búist við því að sjá haf af íslenskum treyjum í kvöld og það er gott að finna stuðning frá þeim. Við mættum fjölskyldu hér sem við héldum að væri íslensk því þau voru öll í íslenskum treyjum, en þá var það rússnesk fjölskylda,“ segir Hjálmar. 

Hjálmar er virkur á Snapchat með tugþúsundir fylgjenda og hefur verið duglegur að sýna frá ferðalaginu í Rússlandi. Í gær sýndi hann m.a. frá því þegar hann gekk um með pela af íslensku brennivíni og bauð fólki að taka sopa. Innfæddur maður tók vel í uppátækið og drakk af stút. „Hann var svo æstur að hann vildi eiga flöskuna. Hann tók sopa af brennivíninu eins og við tökum vatnssopa. Ég hef aldrei lent í öðru eins, hann svolgraði þessu bara í sig.“

Hjálmar spáir Íslandi sigri í kvöld og hefur fulla trú á að liðið komist upp úr riðlinum. „Vonandi þurfum við ekkert að koma heim alveg strax, okkur langar að halda áfram í 16 liða úrslitin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert