Tillögur um friðlýsingu Drangajökulssvæðis byggðar á nýjum rannsóknum

Náttúrufræðistofnun segir í rökstuðningi sínum með tillögu að verndun Drangajökuls …
Náttúrufræðistofnun segir í rökstuðningi sínum með tillögu að verndun Drangajökuls og nágrennis að þar megi m.a. finna litrík setlög og berglög frá kulnaðri megineldstöð. Myndin er tekin á Ófeigsfjarðarheiði og sést Drangjökull efst á henni. mbl.is/Golli

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra segir að tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands um friðlýsingu Drangajökulssvæðisins séu byggðar á nýjum rannsóknum, nýrri en þeim sem sú ákvörðun að setja Hvalárvirkjun í nýtingarflokk rammaáætlunar byggði á. Ákvörðun um hvort farið verði að tillögunum og svæðið friðlýst með einhverjum hætti ætti að byggja á nýjustu upplýsingum. Rammaáætlun sé ekki meitluð í stein heldur eigi að endurskoða hana reglulega. Hann segist ekki getað svarað því á þessum tímapunkti hvort hann muni mæla með friðlýsingu svæðisins. Tillögurnar séu nú komnar í ferli og taka þurfi tillit til ýmissa þátta í þeirri vinnu.

Náttúrufræðistofnun hefur lagt til að Drangajökull á Vestfjörðum og nágrenni hans verði friðlýst m.a. vegna einstakra jarðminja sem eru tilkomnar vegna landmótunar jökla. Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar, sem Vesturverk hyggst reisa á Ófeigsfjarðarheiði, yrði innan þessa svæðis og myndi friðlýsing því hafa áhrif á þær virkjanahugmyndir. Stofnuninni ber samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum að leggja fram tillögur að friðlýsingum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Valgarður

Eftir að tillögurnar hafa verið sendar ráðherra tekur Umhverfisstofnun við þeim og metur til hvaða verndarráðstafana sé nauðsynlegt að grípa á hverju svæði en í tillögum Náttúrufræðistofnunar er fjallað um mörg svæði um allt land, m.a. svæði sem þegar njóta ákveðinnar verndunar.

Málið fer svo í kynningu og að henni lokinni vinnur Umhverfisstofnun umsögn og sendir hana til ráðherra. Ráðherra fer þá yfir þær niðurstöður ásamt sérstakri ráðgjafanefnd. Að þeirri vinnu lokinni er lögð þingsályktunartillaga fyrir þingið um þau svæði sem lagt er til að verði friðlýst.

Ýmsar leiðir til friðlýsingar

Friðlýsing hvers svæðis getur svo verið með ýmsum hætti. Í náttúruverndarlögum er nú kveðið á um mismunandi leiðir í þeim efnum. „Í sumum tilvikum er hægt að friðlýsa með stofnun þjóðgarðs, öðrum með friðlandi, náttúruvætti eða með friðun búsvæðis og mismunandi reglur gilda um mismunandi verndarflokka,“ segir Guðmundur Ingi.

Trausti Baldursson, sem fór fyrir vinnu við tillögur Náttúrufræðistofnunar, sagði í samtali við mbl.is í dag að hlutverk stofnunarinnar væri að rannsaka og kortleggja náttúrufar og koma með tillögur að friðlýsingum, óháð hagsmunum annarra.

Guðmundur Ingi segir að tillögurnar byggi á faglegu mati stofnunarinnar um hvað eigi að taka frá vegna almannahagsmuna og til að vernda fyrir komandi kynslóðir. Í þeim sé meðal annars lögð til verndun jarðfræðiminja sem þykja einstök á lands- eða heimsvísu.  „Nú eru þessar tillögur komnar til mín og ég þarf að skoða ásamt sérfræðingum hvað skuli fara inn á [Náttúruminjaskrá]. Til dæmis eru svæði í tillögum Náttúrufræðistofnunar sem þegar eru friðlýst og horfa þarf til þess sem kemur út úr kynningarferli tillagnanna en einnig þess hvort það sé eitthvað annað sem geti haft áhrif þar á. En ég lít fyrst og fremst á það sem skyldu mína sem fagráðherra að líta til þess að þarna er byggt á faglegri vinnu stofnunarinnar og að mér beri að vinna þessar tillögur áfram.“

Nýtt vísindalegt mat

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagði hádegisfréttum RÚV í dag að krafa um friðlýsingu svæða við Drangajökul, sem myndi koma í veg fyrir Hvalárvirkjun, myndi kollvarpa rammáætlunarferlinu og hún sé á skjön við það ferli sem löggjafinn hafi sett málaflokkinn í.

„Það er alveg ljóst að Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki,“ segir umhverfis- og auðlindaráðherra spurður út í þessi ummæli. „Það var samþykkt í öðrum áfanga rammaáætlunar á Alþingi árið 2013, byggt á skýrslu frá 2011 sem aftur byggði á niðurstöðum og rannsóknum sem áttu sér stað fyrir þann tíma. Ef við skoðum þær heimildir sem liggja að baki tillögum Náttúrufræðistofnunar kemur í ljós að þær eru nær allar úr ritrýndum vísindatímaritum og birtar á árunum 2014-16. Þannig að ég get ekki betur séð en að Náttúrufræðistofnun sé að byggja á gögnum og rannsóknum sem eru birtar eftir að rammaáætlunin var samþykkt. Það má þá kannski segja að þarna sé komið fram nýtt vísindalegt mat. Það ber þó að hafa í huga að stofnunin er ekki að meta þetta út frá rammaáætlun heldur út frá því sem hún telur að eigi að vernda sem sérstakar og einstakar jarðmyndanir á lands- og heimsvísu.“

Hann bendir á að rammaáætlun geti tekið breytingum og eigi að koma til skoðunar á fjögurra ára fresti, þó að á því hafi staðið síðustu ár.

Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn er á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Drangajökull sést í baksýn.
Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn er á áhrifasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Drangajökull sést í baksýn. mbl.is/Golli

Ætlar þú að friðlýsa Drangajökulssvæðið, eins og það kemur þarna fyrir?

„Ég get ekki svarað því á þessum tímapunkti, enda er það Alþingis að ákveða endanlega hvaða svæði skuli fara á áætlun um friðlýsingar,“ segir Guðmundur Ingi. „En málið er komið til ráðuneytisins og í vinnuferli.“

Spurður um þá gagnrýni að þessar tillögur séu seint fram komnar og undirbúningur virkjanaframkvæmda á Ófeigsfjarðarheiði hafnar bendir hann á að vinna stofnunarinnar byggi á náttúruverndarlögunum sem tóku gildi síðla árs 2015. Vinnan hafi svo tekið þennan tíma.

Hefur þú íhugað þitt hæfi við að taka ákvarðanir um friðlýsingu þessa svæðis, verandi fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar?

„Það kemur reglulega upp að ráðherrar þurfi að íhuga slíkt og ákvörðun um hæfi taka þeir sjálfir. En ég er búinn að biðja lögfræðinga í ráðuneytinu að fara yfir þetta og veita mér ráðgjöf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert