Tómas gagnrýnir störf vísindasiðanefndar

Tómas Guðbjartsson, læknir, segist ósáttur við niðurstöðu rektors Karólínsku stofnunarinnar …
Tómas Guðbjartsson, læknir, segist ósáttur við niðurstöðu rektors Karólínsku stofnunarinnar og starfshætti sænsku vísindasiðanefndarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þessi ákvörðun rektors er mér þungbær og ég er afar ósáttur við aðdraganda hennar og niðurstöðu,“ segir Tómas Guðbjartsson, læknir, í stöðufærslu á Facebook í dag um úrskurð rektors Karólínsku stofnunarinnar, Ole Petter Ottesen, þess efnis að Tómas hafi gerst sekur um vísindalegt misferli.

Úrskurður rektors byggir á rannsókn sænsku vísindasiðanefndarinnar á sex vísindagreinum sem tengdust ígræðslu plastbarka í sjúklinga, greinar sem nú hafa allar verið afturkallaðar.

Tómas segir í færslunni að störf vísindasiðanefndarinnar hafi verið gagnrýnd fyrir ónákvæm vinnubrögð og að það séu honum „mikil vonbrigði að vera á grundvelli slíkra vinnubragða sakaður um vísindalegt misferli – ákvörðun sem ekki er hægt að áfrýja.“

Þá kemur fram í færslu Tómasar að „engin ný efnisatriði virðast hafa komið fram í málinu og í umsögn rektorsins um þátt minn í umræddri vísindagrein gætir ónákvæmni og mér eru hreinlega eignaðir hlutir sem ég hafði aldrei aðkomu að. Ég fékk heldur ekki tækifæri til að fylgja eftir þeim gögnum sem ég afhenti nefndinni, þvert á gefin loforð.“

Fékk ekki að hitta nefndirnar

Í máli Tómasar kemur fram að margar rannsóknir hafi verið gerðar vegna plastbarkamálsins og í þeim sem hann hefur haft samskipti við hefur hann verið gagnrýndur vegna einhverra þátta sem betur mættu fara en hvergi er komist að þeirri niðurstöðu að hann hafi vísvitandi haft rangt við eða ekki haft hagsmuni sjúklings í fyrirrúmi.

„Þrjár nefndir á vegum Karólínsku stofnunarinnar hef ég hins vegar aldrei fengið að hitta – þrátt fyrir ítrekaðar óskir um slíkt,“ segir Tómas og gerir athugasemdir við verkferla sem beitt var við rannsókn þeirra á málinu. Þá segir hann einnig að sænska vísindasiðanefndin hafi lofað sér að ræða við nefndina gegn því að hann afhenti nefndinni gögn úr málinu. Tómas segist hafa viljað tryggja það að geta fylgt gögnunum eftir, en að vísindasiðanefndin hafi ekki staðið við loforð sitt.

Þá gagnrýnir hann vísindasiðanefndina fyrir að ýja að því að gögnin sem hann lagði fram hafi verið hlutdræg, en það voru aðallega afrit af tölvupóstum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert