Gríðarleg aukning í notkun rafretta

Reykingar hafa dregist saman á undarnförnum árum á meðan notkun …
Reykingar hafa dregist saman á undarnförnum árum á meðan notkun rafretta sækir í sig veðrið. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Dagleg notkun rafretta hefur rúmlega sexfaldast frá árinu 2015 á meðan notkun á neftóbaki og sígarettum dregst saman. Þetta kemur fram í nýrri könnun landlæknis sem birt var í Talnabrunni embættisins.

Frá því að sama könnun var tekin árið 2012 hafa daglegar reykingar á meðal fullorðna einstaklinga dregist saman úr 14 prósentum í tæp 9 prósent á þessu ári. Hlutfallslega fæstir reykja í aldurshópnum 18-24 ára en daglegar reykingar eru algengastar á meðal kvenna á aldrinum 55-64 ára. Þá eru reykingar algengari hjá þeim sem hafa lokið grunnskólaprófi en þeim sem hafa lokið framhaldsskóla- og háskólaprófi.

Dagleg notkun á tóbaki í vör dregst saman hjá körlum 18-24 ára á milli ára en rúmlega þrefaldast í aldurshópnum 25-34 ára og er nú 22 prósent. Notkun tóbaks í vör á milli kvenna er á bilinu 2-3 prósent en var óveruleg í fyrr könnunum. Notkun tóbaks í nef á meðal karla er um 3 prósent og mun algengari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Árið 2015 notuðu um 1.700 manns rafrettur en í ár hefur þessi hópur stækkað í 10.700 manns og mælist því í um 5 prósentum. Dagleg notkun rafretta á meðal ungs fólks undir 35 ára aldri mældist ekki árið 2015 en er hins vegar núna orðin meiri en daglegar reykingar hjá sama aldurshópi.

Þátttakendur í könnuninni, sem framkvæmd var af Gallup, voru tæplega 4.000 manns og var svarhlutfall 50 prósent.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert