Tugir útkalla fylgja opnun fjallvega

Menn leggja ýmislegt á sig til að komast til fyrirheitna …
Menn leggja ýmislegt á sig til að komast til fyrirheitna landsins, Þórsmerkur. mbl.is/Árni Sæberg

Björgunarsveitum Landsbjargar hafa borist um tuttugu útköll á þeirri viku sem liðin er síðan opnað var á fjallvegi að Landmannalaugum og Fimmvörðuhálsi, en með því opnast á tvær vinsælustu gönguleiðir landsins, um Fimmvörðuháls og Laugaveg. Þetta segir Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörg.

„Við sjáum það um leið og eitthvað er að veðrinu að við fáum tugi útkalla á þessum svæðum,“ segir Jónas. Sjö útköll bárust í gær vegna ferðamanna á gönguleiðunum tveimur.

Jónas segir fólk eiga það til að vanmeta aðstæður og ofmeta um leið eigin getu. Töluverður snjór er á fyrstu tveimur dagleiðum Laugavegarins en svo virðist sem margir ferðamenn átti sig ekki á því að snjór sé til staðar um hásumar.

Jónas Guðmundsson.
Jónas Guðmundsson. mbl.is/RAX

Björgunarsveitirnar eru í nánu samstarfi við ferðaþjónustuna og ráðuneyti ferðamála. Meðal þess sem sem lagt hefur verið til, til að fækka vanbúnum ferðamönnum er að koma upp eftirlitsstöðvum við upphaf gönguleiða þar sem landvörður fer yfir búnað göngumanna, fær hjá þeim ferðaplan og veitir ráðleggingar. Þar sé hægt að stoppa af þá sem ekki eru búnir til ferðarinnar. Slíkt tíðkast víða erlendis, að sögn Jónasar.



Í fyrradag björguðu sveitirnar tveimur ferðamönnum af Fimmvörðuhálsi. Ferðamennirnir, sem voru þýskir, voru komnir niður fyrir snjólínu fjallsins þegar þeir leituðu til björgunarsveitanna en höfðu þá gengið í snjó í nokkra klukkutíma og voru orðnir örmagna. Jónas segir að alltaf sé einhver snjór á fjallinu, en hann sé óvenjumikill núna. Myndirnar eru teknar á Mórisheiði, sem er Þórsmerkurmegin í Fimmvörðuhálsi.

Enn á eftir að opna marga fjallvegi, þar með talið Sprengisand, og því von á að ferðamönnum á hálendinu komi til með að fjölga næstu vikur, og útköllum í takt við það. Hálendisvakt björgunarsveitanna hefst á föstudaginn og stendur fram í ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert