Barnabókum skilað 46 árum of seint

Tvær ævintýrabækur skiluðu sér 46 árum of seint á Borgarbókasafnið.
Tvær ævintýrabækur skiluðu sér 46 árum of seint á Borgarbókasafnið. Ljósmynd/Twitter-síða Arnórs

Tveimur barnabókum var skilað á Borgarbókasafnið í Gerðubergi í dag, meira en 46 árum of seint, en samkvæmt útlánsspjaldi bókanna átti að skila þeim 4. febrúar árið 1972.

Arnór Gunnar Gunnarsson, bókavörður á Borgarbókasafninu, greindi frá þessari skemmtilegu sendingu á Twitter í dag.

Í samtali við mbl.is segir hann að þessi vanskil séu þau mestu sem hann hafi séð í starfi sínu sem bókavörður, en sendingunni fylgdu handskrifuð skilaboð þar sem lánþeginn afsakar sig. Skilaboð lánþegans má lesa hér að neðan.

Ljósmynd/Twitter-síða Arnórs

„GEYMSLUTILTEKT

Eftir nokkra búferlaflutninga.

Betra seint en aldrei!

Lesendurnir nú háskólamenntaðir (hvort sem Aggi og Lísa höfðu nú áhrif þar á) og flutt til útlanda bæði.

Gat ekki stillt mig um að sýna þá skilvísi að skila. LOKS!“

„Það er mjög skemmtilegt að fá svona gamlar bækur til baka,“ segir Arnór og bætir því við að lánþeginn þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða rukkaður um sekt vegna hinna verulegu vanskila.

Ljósmynd/Twitter-síða Arnórs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert