Helsta markmiðið að geta keyrt bílinn

Team Spark afhjúpaði kappakstursbílinn TS18, sem liðið hannaði, í dag.
Team Spark afhjúpaði kappakstursbílinn TS18, sem liðið hannaði, í dag. mbl.is/Arnþór

„Þetta hefur verið mikil vinna, langt fram á kvöld. Það er óhætt að segja það,“ segir Berglind Höskuldsdóttir, liðsmaður í Team Spark, kappakstursliði verkfræðinema við Háskóla Íslands. Liðið afhjúpaði í dag rafknúna kappakstursbílinn TS18, en nemendurnir hafa unnið að hönnun og framleiðslu bílsins í allan vetur. Bíllinn ber nafnið Garún og er um 134 hestöfl. 

Team Spark heldur utan með bílinn til Spánar í lok ágúst til þess að taka þátt í alþjóðlegri kappaksturs- og hönnunarkeppni stúdenta undir merkjum Formula Student í Barcelona. 

Berglind segir að liðið hafi gert miklar breytingar á burðarvirki bílsins frá hönnun fyrri ára. „Það er alltaf markmiðið að gera hann léttari en ég veit ekki hvort það hafi tekist í ár. Þetta er önnur hönnun en hefur verið áður.“

Áhersla lögð á umhverfisvernd

Lið frá Háskóla Íslands hafa tekið þátt í hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema undir hatti Formula Student allt frá árinu 2011. Liðsmenn í Team Spark hafa í ár sett stefnuna á Formula Student Spain sem fer fram í Circuit de Barcelona-Catalunya dagana 21.-24. ágúst, en þar mun liðið etja kappi við um 70 lið verkfræðinema frá háskólum víða að úr Evrópu, að því er segir í tilkynningu liðsins.

Um 40 nemendur úr ýmsum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands hafa tekið þátt í hönnun bílsins og fá vinnu sína metna sem hluta af náminu við Háskóla Íslands.

Líkt og undanfarin ár var lögð áhersla á hönnun rafknúins og umhverfisvæns bíls. „Við erum að keppa í rafmagnsflokki, þannig að bíllinn mengar ekki þar sem enginn útblástur er frá honum,“ útskýrir Berglind.

Háskólakötturinn Rósalind lét sig ekki vanta á afhjúpunina.
Háskólakötturinn Rósalind lét sig ekki vanta á afhjúpunina. mbl.is/Arnþór

Setja stefnuna á aksturshlutann

Berglind segir liðinu hafa gengið vel í keppnum síðustu ár en ekki takist þó alltaf að keyra bílinn. „Í fyrra náðum við ekki að keyra bílinn. Svo það er svona helsta markmiðið í ár, að ná að taka þátt í aksturshluta keppninnar.“   

Vitanlega þurfti því að skera úr um hver væri hæfasti ökuþór liðsins ef til þess kæmi að keyra þyrfti bílinn í kappakstri. Til þess notaðist liðið við rökrétta aðferð. „Við fórum í go kart og kepptum okkar á milli. Þeir sem náðu bestum tíma þar voru valdir sem ökumenn liðsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert