Kom að bíl á hvolfi á miðjum vegi

Hannes keyrir veginn á hverjum degi en hefur aldrei séð …
Hannes keyrir veginn á hverjum degi en hefur aldrei séð neitt þessu líkt. Ljósmynd/Hannes Lárus Hjálmarsson

„Þetta eru ferðamenn sem voru mjög líklega að keyra of hratt,“ segir Hannes Lárus Hjálmarsson sem kom að fólki sem hafði velt bíl við á á Möðrudalsöræfum síðdegis í gær. Hann tók þessa ljósmynd af atvikinu og deildi á samfélagsmiðlum. Myndin hefur hlotið þó nokkra athygli og veltir fólk fyrir sér hvernig í ósköpunum fólkið hafi farið að þessu.

„Þessi á sem þau keyra í er svolítið í hvarfi þannig að ef keyrt er hratt að henni eru meiri líkur á að þeim fipist aðeins og missi stjórn á bílnum. Þau hafa keyrt upp á barðið við ána og velt bílnum svona fallega,“ útskýrir Hannes, sem starfar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Geo Travel í Mývatnssveit og keyrir veginn, fjallveg F 905, á hverjum degi.

Hann spjallaði við fólkið til þess að athuga hvort væri í lagi með það og sögðust þau vera að bíða eftir aðstoð lögreglu, en þau höfðu velt bílnum hálftíma áður en Hannes og félagar komu að þeim. Þeir voru á leið yfir ána og þurftu að komast fram hjá bílnum, en að sögn Hannesar var það lítið mál þar sem þeir voru á svo stórum bíl.

„Við höfum séð ýmislegt á ferðum okkar á hálendinu en ekki alveg svona,“ segir Hannes að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert