Mannréttindadómstóll skoðar Landsréttarmál

Ástæðan fyrir skjótri meðferð mun vera sú að alvarleg réttaróvissa …
Ástæðan fyrir skjótri meðferð mun vera sú að alvarleg réttaróvissa geti skapast. mbl.is/Hjörtur

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið kæru vegna Landsréttarmálsins til meðferðar og krafist skýringa frá íslenska ríkinu. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Aðeins er um mánuður síðan Hæstiréttur úrskurðaði að að seta Arnfríðar Einarsdóttur, dómara í Landsrétti, væri ekki brot á lögum, en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður manns sem stefnt var fyrir réttinn, taldi að svo væri. Hann taldi setu Arnfríðar jafnframt brot á ákvæðum mannréttindasáttmála, þar sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði brotið lög með því að skipa Arnfríði og þrjá aðra dómara í Landsrétt, þvert á niðurstöður hæfnisnefndar.

Niðurstaða Hæstaréttar var kærð til Mannréttindadómstólsins í Strassborg í lok maí, en fram kemur í frétt RÚV að svo skjót málsmeðferð sé einsdæmi. Ástæðan mun vera að alvarleg réttaróvissa geti skapast vegna málsins.

Spurningar Mannréttindadómstólsins til íslenska ríkisins eru í tveimur liðum. Spurt er hvernig það samrýmist ákvæði mannréttindasáttmála, að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var. Þá er spurt um niðurstöðu Hæstaréttar í maí í samhengi við niðurstöðu dómsins um að ráðherra hafi brotið lög við skipunina.

Íslenska ríkið hefur frest til 18. ágúst til að svara erindi dómstólsins, en mælið gæti verið flokkað sem fordæmisgefandi af hálfu dómsins. Samkvæmt frétt RÚV er niðurstöðu jafnvel að vænta innan nokkurra mánaða, en ekki ára eins og venjan er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert