Yfir 5 milljónir króna hafa safnast

Áheitasöfnun mun standa yfir fram á laugardagskvöld.
Áheitasöfnun mun standa yfir fram á laugardagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í kvöld fór áheitasöfnun WOW cyclothon yfir fimm milljónir króna, en spenna hefur færst í leikinn og áheitum farið að fjölga. Söfnunin hófst í byrjun vikunnar og mun standa yfir fram á laugardagskvöld.

Í efsta sæti í áheitakeppninni er lið ÞG verk en þeir hafa nú þegar safnað 384.000 krónum. Framan af var liðið í þriðja sæti á eftir R&R1 og R&R2 en skaust nú fram úr þeim. R&R1 hefur safnað 315.900 kr. og R&R2 311.900 kr. Í fjórða sæti situr Emil Þór Guðmundsson  með 264.500 kr.

Lið Airport Associates og Team Eimskip hafa einnig tekið stór stökk upp áheitalistann. Airport Associates hafa safnað 194.000 kr. og Team Eimskip 172.000 kr. og skipa því fimmta og sjötta sæti.

Þriðja árið í röð taka lið á vegum Hjólakrafts þátt í sérflokki. Hjólakraftur eru samtök sem hafa það að leiðarljósi að virkja börn og ungmenni sem ekki hafa fundið sig í öðrum íþróttum og eru í áhættuhóp fyrir lífsstílssjúkdóma. Í ár tóku 110 Hjólakraftsliðar þátt í 11 liðum sem öll nálgast nú endamarkið óðfluga. Ungmennin standa sig þó ekki einungis vel á hjólunum því  lið þeirra hafa samanlagt safnað 317.000 kr. þegar þetta er skrifað.

Annað árið í röð  renna öll áheiti sem safnast í WOW cyclothon  til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Liðin keppa sín á milli í áheitakeppni og hljóta meðlimir sigurliðsins flugmiða með WOW air í vinning. Í fyrra sigraði lið CCP en þau söfnuðu 1.651.000 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert