Máli Jóns Þórs og VR vísað frá dómi

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Jón Þór Ólafsson, alþingismaður og Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður VR og Jóns Þórs við uppkvaðningu úrskurðarins í dag. mbl.is/Valli

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá máli VR og Jóns Þórs Ólafssonar, alþingismanns, sem höfðað var vegna ákvörðunar kjararáðs 29. október árið 2016 um hækkun á þingfararkaupi alþingismanna og launakjörum ráðherra.

Stefndi, íslenska ríkið, krafðist frávísunar og taldi að hvorki verkalýðsfélag né þingmaður gæti kært ólöglegar aðgerðir stjórnvalds, í þessu tilviki ákvörðun kjararáðs. 

Stefna þeirra Jóns Þórs og VR var lögð fram í byrjun desember á síðasta ári og kröfðust stefnendur þess að ákvörðun kjararáðs yrði ógilt. Í tilkynningu sagði að VR teldi nóg komið af aðgerðarleysi stjórnvalda vegna málsins og því hefði verið ákveðið að láta reyna á það fyrir dómstólum.

„Hækkun alþingismanna og ráðherra, sem jafngildir 36-44% hækkun launa, er úr öllum takti við almennar hækkanir á vinnumarkaði. Þess er krafist að ákvörðunin sem stefnir stöðugleika á vinnumarkaði í bráða hættu og hefur þannig bein áhrif á hagsmuni félagsmanna VR, verði tafarlaust ógilt með dómi,“ sagði í tilkynningunni.

Alþingi lagði kjararáð niður undir lok þingsins, fyrr í þessum mánuði.

Kjararáð hafi ekki farið að lögum

Krafa VR og Jóns Þórs byggði á því að kjararáð hefði ekki farið að lögum við ákvörðun sýna enda stæði það skýrum stöfum í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 47/2006 um kjararáð að ráðið skyldi við ákvarðanatöku „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði,“ líkt og það er orðað í stefnu.

Fram kom að Kjararáð væri vant að rökstyðja ákvarðanir sínar með þeim orðum að þær væru byggðar á almennum hækkunum á vinnumarkaði. Í þetta skipti hafi rökstuðningur ráðsins þó verið frábrugðinn því sem almennt hefði tíðkast og ekki verið vísað til almennrar þróunar á vinnumarkaði, heldur aðeins tekið fram að eðlilegt væri að þingfararkaup væri það sama og laun héraðsdómara.

Báðir aðilar ættu aðild að málinu

Um lögvarða hagsmuni og aðild að málinu kom m.a. fram í stefnunni að ákvörðun kjararáðs hefði bein og milliliðalaus áhrif á hagsmuni Jóns Þórs þar sem hann starfaði sem alþingismaður, en einnig var vísað til hundraða mála í dómasafni Hæstaréttar um stefnendur í málum er vörðuðu ógildi stjórnvaldsákvarðana.

Um VR sagði að aðildarhæfi og hagsmunir stéttarfélagsins væru augljósir. Félagsmenn í VR væru 34.800 að tölu og að félagið semdi um laun þeirra og kjör við samtök atvinnurekenda. Vísað var til samþykkta VR, þar sem fram kom að tilgangur félagsins væri m.a. „að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka yfirleitt.“ 

Einnig sagði að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeildur félli það undir tilgang félagsins að höfða og reka mál sem þetta í því skyni að vinna að framgangi mála er verða mættu til aukinna réttinda og bættra kjara launafólks og vinna að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar og launtaka.

mbl.is