Ekki lengur í aukastarfi sem bílstjóri

Mæðgurnar Aline og Beatriz Soares Ladeira.
Mæðgurnar Aline og Beatriz Soares Ladeira. mbl/Arnþór Birkisson

Hin brasilíska Beatriz Soares Ladeira fékk A, hæstu einkunn, á samræmdu prófi í íslensku fyrr í vetur eftir að hafa búið aðeins í eitt og hálft ár á Íslandi. Aline, móðir hennar, er læknir en hefur ekki getað notað menntun sína á Íslandi. Lífið er ólíkt því sem sjö manna fjölskyldan lifði í Brasilíu.

Beatriz fékk líka A á samræmdu prófi í stærðfræði og raðtöluna 100 sem þýðir að enginn var hærri en hún á landinu þótt einhverjir geti hafa fengið sömu einkunn. En hvernig er það hægt að fá hæstu einkunn í umdeildu samræmdu prófi sem kvartað hefur verið mikið undan eftir að hafa verið svona stutt á Íslandi? Því getur Beatriz hæglega svarað, á íslensku að sjálfsögðu, en fyrst; hvernig stendur á því að hún og fjölskylda hennar fluttu til landsins frá Brasilíu?

Aline, móðir hennar, verður fyrir svörum. Hún er ekki eins góð í íslenskunni og dóttirin en segist vera búin að læra heilmikið í málinu eftir að hún fór að vinna í janúar og notast því við ensku í bland við íslenskuna. Fjölskyldan kom til landsins í tengslum við starfsemi kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. „Þrjár fjölskyldur komu á sama tíma hingað til lands til að hjálpa,“ segir Aline en hinar fjölskyldurnar tvær eru frá Ítalíu.

Hún útskýrir að valið að fara til Íslands sé ekki þeirra heldur sé þeim úthlutað landi en dregið er um áfangastað. „En við fáum síðan auðvitað að ráða hvort við tökum þessu boði,“ segir Aline en úr varð að sjö manna fjölskyldan flutti hingað í júlí 2016. Aline og maður hennar Gustavo eiga fimm börn, Beatriz, sem er fimmtán ára, er elst en yngst er Julia, tveggja ára. Þar á milli eru Pedro, Rafael og Clara.

Góðar móttökur í Seljaskóla

„Það hefur verið tekið ótrúlega vel á móti okkur hérna, ég bjóst ekki við því fyrir fram. Þegar við komum hittum við svo margt indælt fólk, sérstaklega í gegnum skólann,“ segir Aline en fjögur af fimm börnum eru í Seljaskóla í Reykjavík en sú yngsta bíður þess að komast inn í leikskóla.

„Við erum mjög þakklát öllum í skólanum. Ég er viss um að það hvað Beatriz gangi vel í íslensku sé að stórum hluta skólanum að þakka.“

Hvernig var fyrir þig, Beatriz, að byrja í íslenskum skóla? „Í byrjun voru allir mjög almennilegir og hjálpuðu mér mikið. Ég var í sérstökum íslenskutímum. Ég gerði allt á íslensku. Það var mjög erfitt því ég skildi eiginlega ekkert fyrst.“

Hún segist þó hafa byrjað á því að tala ensku við vinkonur sínar en fannst eins og ef hún talaði alltaf bara ensku myndi hún ekki komast almennilega inn í hópinn. Hún fór svo smám saman að tala meiri íslensku en fór síðan til frí til Brasilíu síðasta sumar. „Þá varð ég hrædd um að ég myndi bara gleyma öllu. Þegar ég kom til baka sagði ég við sjálfa mig, ég ætla bara að tala íslensku, enga ensku.“

Það plan virðist aldeilis hafa gengið upp. En hvernig tókst henni að ganga svona vel á samræmda prófinu? „Það var æðislegt, ég gat varla trúað þessu,“ segir Beatriz.
Hún segist hafa farið vel yfir námsefnið og síðan tveimur dögum fyrir prófið hafi hún sökkt sér algjörlega ofan í það og einbeitt sér að föllum í íslensku. Hún segir það hafa verið erfitt og að hún sé nú að ná betri tökum á þeim í töluðu máli.

„Mér finnst málfræði skemmtileg og ég hef gaman af því að skilja hvernig málið virkar.“
Mamma hennar segir að hún hafi skrifað málfræði á litla gula miða sem hún hengdi upp út um allt á heimilinu. „Það var allt gult,“ segir „Ég gerði lag fyrir óákveðin fornöfn og var til dæmis að bursta tennur og syngja það um leið,“ segir Beatriz, sem er greinilega frumleg í lærdómsaðferðum sínum.

Námið öðruvísi í Brasilíu en hér

Aline segir að námið sé öðruvísi á Íslandi en í Brasilíu og að mörgu leyti erfiðara úti en grunnskólinn taki líka níu ár í stað tíu ára hér. Henni fannst það fyrst skrýtið en nú sé hún mjög ánægð með íslenska skólakerfið. „Úti í Brasilíu eru gerðar svo miklar kröfur. Beatriz var náföl í framan með bauga, stressuð að læra. Ég sé að núna lærir hún en er ekki alltaf stressuð,“ segir Aline og bætir við að hún hafi núna betri tíma til að sinna ballettinum og öðrum hugðarefnum.

„Ég er ekki ánægð með hvernig gamli skólinn var því álagið var svo mikið en það eru aðrir hlutir sem skipta máli. Ég er ánægð með að á Íslandi hafa nemendur tíma til að læra og tíma til að lifa. Tíma til að fara út og leika sér, tíma til að sinna íþróttum og vera þau sjálf,“ segir Aline en Beatriz er sjálf ánægð með þessi skipti.

„Í Brasilíu var svo mikið stress. Ég fékk 6,8 í einu ritunarprófi og fór að gráta og fannst þetta svo hræðilegt. Hér er ég ekki svona stressuð, auðvitað vil ég standa mig vel en ég fer ekki að gráta yfir því,“ segir hún.

Aline bætir við: „Þetta er eins og teygja, ef þú ert alltaf að teygja á henni þá getur eitthvað brostið. Þetta er mjög erfitt fyrir fullkomnunarsinna eins og Beatriz,“ segir hún en henni finnst íslenska skólakerfið henta henni vel.

Eitt af því sem hefur slegið í gegn hjá bæði móður og dóttur er að hér geta börn og unglingar labbað sjálf í skólann. „Það er æðislegt. Ég er svo glöð. Ég get labbað ein og ef það vantar eitthvað þá er hægt að hlaupa heim og koma aftur í skólann. Ég get farið ein í Krónuna eða tekið strætó í Smáralindina,“ segir Beatriz sem finnst þetta sjálfstæði mikils virði.

„Í Brasilíu þurfti mamma mín að keyra mig allt. Ef ég vildi hitta vinkonur mínar þá þurfti hún að keyra mig. Ég gat ekki hitt þær nema hún keyrði mig. Við hittumst frekar sjaldan utan skóla,“ segir hún og útskýrir að þetta sé öfugt við hvernig lífið sé hjá þeim í Reykjavík þegar ekkert mál sé að hitta vinina. „Þetta er æðislegt,“ segir hún.

„Líka fyrir mig!“ segir Aline. „Ég þarf ekki lengur að keyra út um allt. Ég þarf ekki lengur að vera í aukastarfi sem bílstjóri.“

Henni finnst þetta líka gefa börnunum aukið sjálfstæði og þau læri ábyrgð með því að koma sér á milli staða og þurfa að hugsa um tímasetningar. Þetta sé mikilvægur lærdómur. „Það finnst mér mjög jákvætt,“ segir Aline.

Aline er læknir en hefur ekki starfað sem slíkur hérlendis. „Þegar ég kom hingað vissi ég að það yrði ekki auðvelt að fá vinnu sem læknir hér. Að fá öll leyfi og líka út af tungumálinu. Ég veit ekki enn hvernig þetta fer. Ég veit ekki hvernig erindi mínu verður tekið; ég er búin að þýða öll skjölin mín og fara með til embættis landlæknis og núna er búið að senda þetta til háskólans sem er með þetta til meðferðar,“ segir Aline sem segist bíða þolinmóð.

Þetta er styttri útgáfa af viðtali sem birtist við Beatriz og Aline í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert