Skjót niðurstaða MDE mikilvæg vegna réttaróvissu

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/​Hari

„Mér finnst mjög gott hvað þeir vinna þetta hratt, að þeir hafi ákveðið að beita ákveðinni flýtimeðferð varðandi þetta mál. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að fá niðurstöðu Mannréttindadómstólsins fljótt, því það er uppi ákveðin réttaróvissa. Við þurfum að fá úr þessu skorið eins fljótt og mögulegt er,“ segir Helga Vala Helgadóttir, alþingiskona og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, um mál Landsréttar fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

Hæstirétt­ur Íslands kvað upp dóm fyr­ir um mánuði um að seta Arn­fríðar Einarsdóttur í Lands­rétti væri ekki and­stæð lög­um, en sú niður­staða var kærð til Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins í Strass­borg í lok maí með vísan til 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Í vikunni bárust íslenska ríkinu fyrirspurnir vegna málsins frá Mannréttindadómstólnum sem ríkið hefur tæplega tveggja mánaða frest til þess að svara. 

Hissa á skýringum ráðherra

Aðspurð hvaða þýðingu hún telji það hafa ef niðurstaða Mannréttindadómstólsins verði á þá leið að brotið hafi verið gegn sáttmálanum segir Helga Vala að íslenskt réttarkerfi verði að lúta því. Hún telur að endurupptaka þyrfti þau mál sem þegar hefðu fengið úrlausn Landsréttar ef niðurstaðan yrði sú. „Já, það þarf öll málsmeðferðin að eiga sér stað aftur. Af því að ef að dómari er vanhæfur, þá er hann vanhæfur frá fyrsta stigi máls í Landsrétti. Þá myndi ég halda að það sama ætti við um alla 15 dómara réttarins,“ segir Helga Vala.

Helga Vala segist hissa á skýringum dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, um að enn sé óljóst hvort dómstóllinn muni taka málið til meðferðar. „Dómstóllinn sendi, jú, tvær spurningar til íslenskra stjórnvalda. Þegar dómstóllinn gerir það þá er alveg ljóst að þeir eru að taka málið til meðferðar. Þannig að ég átta mig ekki alveg á þeirri yfirlýsingu ráðherra,“ segir Helga Vala.

Dómstóllinn sjái ástæðu til þess að spurja

Hún segir þær spurningar sem Mannréttindadómstóllinn beindi til íslenska ríkisins nú á dögunum, geta bent til þess að dómstólnum þyki annmarka vera til staðar á málinu og meðferð þess í íslensku réttarkerfi. Í yfirlýsingu sinni vegna málsins í gær sagði Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, að eðlilegt væri að dómstóllinn spyrði þessara tilteknu spurninga, þar sem þær væru í samræmi við málatilbúnað kæranda málsins, gagnaðila íslenska ríkisins.

 „Að minnsta kosti sér dómstóllinn ástæðu til þess að spurja þessara spurninga, hvernig þetta geti farið saman. Að ferlið sé ólögmætt og valið ólögmætt, en þeir sem urðu fyrir valinu séu engu að síður löglega skipaðir. Það finnst dómstólnum greinilega vert að spyrjast fyrir um,“ segir Helga Vala.

„Eins vont og hægt er“ 

 „Ég er eiginlega alveg ótrúlega fegin að þeir séu að vinna þetta svona hratt, því ef niðurstaðan verður sú að þetta sé ekki í lagi þá er skaðinn ekki meiri en svo að dómstóllinn mun þá aðeins hafa starfað í innan við ár. En við skulum spurja að leikslokum. Við erum ekki komin með niðurstöðu dómstólsins. Það er að minnsta kosti gott að þessari óvissu verði eytt með þessum hraða og að dómstóllinn líti þannig á að það sé full ástæða til að fara hratt í málið,“ segir Helga Vala.

Hún segir það slæmt ef niðurstaða Mannréttindadómstólsins verði sú að brotið hafi verið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmálans. „Það er auðvitað alltaf vont fyrir réttarkerfið okkar þegar Mannréttindadómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að niðurstöður dóma hér á landi standist ekki skoðun.“

Helga Vala segist jafnframt í heild ósátt með það hvernig farið hefur fyrir stofnun dómstigsins. „Það sem ég vil horfa á líka er að mér finnst þetta mál allt saman, allt frá upphafi til enda, afskaplega vont. Mér finnst þetta eins vont og hægt er. Við fórum af stað með þetta mikilvæga dómstig sem Landsréttur er, það var vandað mjög til verksins varðandi lagasetninguna og allan undirbúning og mér finnst ótrúlega grátlegt hvernig dómsmálaráðherra fórst þetta verkefni, sem er í raun afmarkaður hluti ferlisins, úr hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert