Smæð þjóðfélagsins og tengsl til trafala

Tómas Guðbjartsson er prófessor við Háskóla Íslands og starfar á …
Tómas Guðbjartsson er prófessor við Háskóla Íslands og starfar á Landspítalanum. Spítalinn hyggst ráðfæra sig að nýju við Háskóla Íslands vegna úrskurðar rektors Karolinska um vísindaskrif Tómasar í The Lancet. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það eru of mörg mál sem rannsaka þarf sem falla á milli og þar á meðal er plastbarkamálið,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Nefndin samþykkti 30. maí sl. að eftirlit með stjórnsýslu dómstóla og plastbarkamálið yrðu tekin upp aftur en ekkert hefur verið fjallað um plastbarkamálið frá 2016, segir Líneik Anna Sævarsdóttir, varaformaður nefndarinnar.

Elín Hirst alþingismaður hóf umræðu um málið fyrir rúmum tveimur árum með fyrirpurn til heilbrigðisráðherra um óháða rannsókn á plastbarkamálinu og velti því upp hvort hér á landi væru starfandi læknar sem hefðu engra hagsmuna að gæta.

„Vegna stjórnarskipta 2016 og 2017 tapaðist tími og fjöldi mála hefur safnast upp hjá nefndinni. Það er full ástæða til þess að skoða plastbarkamálið og hvort og þá hvernig smæð þjóðfélagsins kemur hugsanlega í veg fyrir að hægt sé að rannsaka mál eins og það og eftirlit með stjórnsýslu dómstóla, svo vel sé,“ segir Helga Vala.

Brynjar Níelsson alþingismaður segir vinnu að hefjast á yfirferð skýrslu óháðu íslensku rannsóknarnefndarinnar og fleiri gagna sem liggi fyrir.

„Plastbarkamálið er risamál úti í hinum stóra vísindaheimi og það skiptir máli að Háskóli Íslands og Landspítalinn njóti trausts í vísindasamfélaginu. Smæðin hér og tengsl milli manna eru okkur alltaf til trafala en við komumst ekki hjá því að rannsaka plastbarkamálið,“ segir Brynjar og bætir við að tilgangurinn sé ekki að klekkja á neinum heldur fá rétta mynd af því sem gerðist, draga af því lærdóm og gera úrbætur.

Forstjóri Landspítalans lýsti því yfir í gær, í vikulegum föstudagspistli, að Landspítalinn hygðist ráðfæra sig að nýju við Háskóla Íslands þegar skólinn hefði yfirfarið úrskurð rektors Karolinska. Í þeim úrskurði er tekið á þætti Tómasar Guðbjartssonar, prófessors við HÍ, sem einnig starfar á Landspítala.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert