Yfirlýsing ráðherra „barnsleg óskhyggja“

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljósmynd/ECHR

„Það er ánægjulegt að dómstólinn hafi ákveðið að taka málið til meðferðar og það er einsdæmi í Íslandssögunni að mál hafi verið tekið þetta hratt og örugglega fyrir,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður. Vilhjálmur er verjandi manns sem stefnt var fyrir Landsrétt eftir að dómstóllinn tók til starfa. Vilhjálmur taldi setu Arnfríðar Einarsdóttur í dóminum í kjölfar skipunar dómsmálaráðherra í dómarasæti við Landsrétt, þvert á niðurstöðu hæfisnefndar, brot á lögum og ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.

Hæstiréttur Íslands kvað upp dóm fyrir um mánuði um að seta Arnfríðar í Landsrétti væri ekki andstæð lögum, en Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Mannréttindadómstólsins í Strassborg í lok maí fyrir hönd umbjóðanda síns.

Forgangsmál hjá Mannréttindadómstól Evrópu

Mannréttindadómstóllinn hefur krafið íslensk stjórnvöld skýringa vegna málsins, aðeins um þremur vikum eftir að málið var kært til dómstólsins, en venjan er að bið eftir úrlausnum mála fyrir dómstólum sé mun lengri og úrlausnin taki jafnvel nokkur ár. Vilhjálmur segir ánægjuefni að dómstóllinn sýni viðbrögð svo skömmu eftir kæru málsins.

Vilhjálmur segir ánægjulegt að Mannréttindadómstóllinn hafi ákveðið að taka málið …
Vilhjálmur segir ánægjulegt að Mannréttindadómstóllinn hafi ákveðið að taka málið til meðferðar. Ljósmynd/Aðsend

„Mér sýnist að þetta muni vera forgangsmál hjá dómstólnum. Bæði sér maður það á viðbrögðum dómstólsins og líka af því að dómstóllinn hefur lýst því yfir að þetta sé að öllum líkindum fordæmisgefandi mál,“ en ástæða þess mun vera að málið sé í flokki kerfislega mikilvægra mála sem þurfi skjóta afgreiðslu. Einkum eru í flokknum mál sem gætu haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir réttarkerfi einstakra ríkja eða álfunnar allrar.

„Og svo eru það auðvitað áleitnar grundvallarspurningar sem dómstóllinn spyr íslenska ríkið og koma alveg beint að kjarna þessa máls. Ég er bara ánægður með að dómstóllinn hafi tekið á þessu af festu og ætli að vinna þetta hratt og örugglega.“

Barnsleg óskhyggja hjá ráðherra

Í yfirlýsingu sem Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sendi frá sér í dag segir hún að enn sé ekki að fullu ljóst hvort Mannréttindadómstóllinn ætli að taka málið til meðferðar. Vilhjálmur gefur lítið fyrir þær fullyrðingar ráðherra.

 „Það er auðvitað ekki rétt hjá ráðherranum. [...] En það er auðvitað þannig eins og almennt hjá dómstólum að komi upp einhver atvik á leiðinni, sé gögnum ekki skilað og annað slíkt sem dómstóllinn krefur kæranda um, þá getur það leitt til þess að málið verði látið niður falla. Þetta er alrangt og einhverskonar barnsleg óskhyggja hjá ráðherranum, að dómstóllinn muni fella málið niður. Dómstóllinn hefur tekið málið til meðferðar og það mun ganga dómur í málinu. Ég held frekar að ráðherrann ætti að velta því fyrir sér af hverju það er heldur en að reyna að snúa út úr með þessum hætti sem hún gerir,“ segir Vilhjálmur.

„Það fyrsta sem mér kom í hug þegar ég las þessa yfirlýsingu, þá varð mér hugsað til Neró Rómarkeisara sem sat og spilaði á fiðlu á meðan Róm brann.“

Úrlausnir dómaranna kunni að vera ónýtar

Sigríður Á. Andersen sagði í yfirlýsingu sinni í dag að dómstóllinn veki, með spurningum sínum til íslenska ríkisins, athygli á að Mannréttindadómstóllinn endurskoði yfirleitt ekki dómsniðurstöður dómstóla aðildarríkjanna þegar þeir hafa komist að því að skipan dómara hafi verið í samræmi við lög.

Vilhjálmur bendir hins vegar á að í meirihluta þeirra mála sem höfðuð hafi verið gegn íslenska ríkinu fyrir dómstólnum hafi  dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að réttur kæranda samkvæmt ákvæðum Mannréttindasáttmálans hafi verið brotinn. „Ég held að það ætti nú líka að segja ráðherranum eitthvað,“ segir Vilhjálmur.

„Ég tel að það sé augljóst að ef niðurstaða dómstólsins verður sú að viðkomandi dómarar verði ekki taldir hafa verið með dómsvald og skipaðir samkvæmt lögum þá hafa þeir ekki farið formlega með dómsvald og þá eru þær úrlausnir sem þeir hafa komið að einfaldlega ónýtar. Ég sé ekki betur en að það þurfi þá að endurupptaka þau mál, flytja þau aftur og dæma þau á nýjan leik,“ segir Vilhjálmur.   

„Fari svo að þetta verði talið brot á 6. grein sáttmálans, um réttláta málsmeðferð, þá er það auðvitað sorglegur áfellisdómur yfir íslensku réttarkerfi og samfélagi. Við höfum talið okkur vilja vera á ákveðnum stað þegar kemur að mannréttindum og vernd til þeirra og þá einkum horft til nágrannalanda okkar eins og Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar. Við verðum sett í flokk með allt öðrum ríkjum verði niðurstaðan þessi.“

Íslenska ríkið hefur frest þar til um miðjan ágústmánuð til þess að koma athugasemdum sínum á framfæri. Vilhjálmi verður þá gefinn kostur á að gera athugasemdir við málatilbúnað íslenska ríkisins og koma á framfæri kröfum fyrir hönd umbjóðanda síns.

mbl.is