Ljósmæður samþykkja yfirvinnubann

Bannið tekur gildi um miðjan mánuðinn.
Bannið tekur gildi um miðjan mánuðinn. mbl.is/Árni Sæberg

Félagskonur í Ljósmæðrafélagi Íslands hafa samþykkt yfirvinnubann og verður verkfallsboðun borin út á morgun. Bannið tekur gildi fjórtán dögum síðar, eða um miðjan júlí.

77,6 prósent þátttaka var í kosningunni og samþykktu 90 prósent yfirvinnubannið. 6,3 prósent sögðu nei og 3,7 prósent skiluðu auðu.

Þetta þýðir að ljósmæður munu ekki vinna neina yfirvinnu umfram vinnuskyldu eftir miðjan mánuðinn. Ekki verður hægt að kalla þær út vegna aukins álags eða veikinda annars starfsfólks. Uppsagnir 12 ljósmæðra á Landspítalanum tóku gildi í dag og því ljóst að álagið á þær sem eftir eru mun aukast verulega næstu daga.

Ekki hefur verið boðaður nýr fundur í kjaradeilu Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisins fyrr en á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert