„Þetta er eins og fangaflug“

Ljósmynd/Aðsend

Farþegar á leið með flugi Pri­mera til Kefla­vík­ur frá Mall­orca hafa nú setið fast­ir í flug­vél­inni í um þrjár klukku­stund­ir og beðið eft­ir því að flug­vél­in kom­ist í loftið þar ytra, líkt og mbl. greindi frá. 

„Það segir okkur enginn neitt. Ég hef aldrei lent í öðru eins. Ef ég kemst heil heim þá flýg ég aldrei aftur,“ sagði einn farþeganna í skilaboðum til aðstandanda síns. 

Mbl.is hefur frá aðstandendum farþeganna að dvölin í flugvélinni sé sem næst því að vera fangaflug, svo óbærilegt ástand sé í vélinni. Ekkert vatn sé fyrir farþega, loftlaust og farþegar orðnir afar pirraðir á aðstæðunum. Þeim hafi verið boðið að fara úr vélinni fyrir einhverju síðan, en öll hótel séu uppbókuð á Mallorca og því hafi flestir viljað freista þess að komast heim ef vélin kæmist í loftið. 

Farþegar hafi farið frá hótelum sínum fyrir um 12 klukkustundum, en fyrst hafi verið tveggja og hálfs tíma seinkun á vélinni. Farþegarnir biðu við hliðið til þess að komast út í vélina í um klukkustund eftir að hafa farið í rútu um flugvöllinn. Þau fóru svo aftur í rútu en svo tók við önnur bið við annað hlið. 

Fyrst var þeim sagt að vélin væri biluð, en svo varð vélin bensínlaus. Í framhaldinu varð biðin orðin svo löng þegar var loks komið út í vélina að áhöfnin var komin fram yfir lögbundinn hvíldartíma svo skipta þurfti um áhöfn.

Fólk með ungabörn er meðal farþega. Þá segir aðstandandinn að lömuð kona hafi fallið í yfirlið í vélinni eftir að hafa setið í 5 klukkustundir og sjúkrabíll hafi verið kallaður út til þess að færa konuna undir læknishendur. 

Uppfært kl. 23:08

Samkvæmt upplýsingum á vef Isavia mun vélin lenda í Keflavík kl. 01:03, en hún var upphaflega skráð til lendingar kl. 18:30 að íslenskum tíma. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert