Farbann framlengt og ákæra undirbúin

Eitt gagnaveranna sem tölvunum var stolið úr.
Eitt gagnaveranna sem tölvunum var stolið úr. vb.is/Hilmar Bragi

Farbann yfir Sindra Þór Stefánssyni hefur verið framlengt fram í lok júlí. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is. Þá hefur farbann yfir meintum samverkamanni Sindra einnig verið framlengt.

Sindri Þór Stefánsson.
Sindri Þór Stefánsson.

Að sögn Ólafs Helga er rannsókn málsins á lokastigi og verið er að undirbúa ákærur á hendur málsaðilum. Hann segir málið flókið og að það sé margt sem þurfi að skoða.

Um er að ræða stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar, en staðsetning stolna tölvubúnaðarins sem málið snýst um er enn á huldu. Um 600 tölvur er að ræða sem stolið var og er verðmæti þeirra talið nema 200 milljónum króna. Fyrirspurn vegna tölvanna var send til Kína í maí en engin svör hafa borist. Þá buðu eigendur tölvanna fundarlaun upp á 6 milljónir króna fyrir hvern þann sem gæti upplýst um staðsetningu búnaðarins. Það bar engan árangur.

mbl.is