Hvatt til friðlýsingar Drangajökulssvæðis

Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn á Ófeigsfjarðarheiði. Drangajökull sést í baksýn.
Nyrðra-Eyvindarfjarðarvatn á Ófeigsfjarðarheiði. Drangajökull sést í baksýn. mbl.is/Golli

Í síðustu viku hófst undirskriftasöfnun þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að friðlýsa Drangajökulssvæðið í samræmi við tillögu Náttúrufræðistofnunar. Nú þegar hafa rúmlega 1.000 undirskriftir safnast.

Framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar er innan þess svæðis sem um ræðir og lýsa þátttakendur því jafnframt yfir að þeir vilji að hætt verði við öll virkjanaáform á svæðinu, segir í fréttatilkynningu sem borist hefur vegna söfnunarinnar og Þórður Björn Sigurðsson skrifar undir fyrir hönd hópsins sem að henni stendur.

„Ljóst er að verði Hvalárvirkjun að veruleika mun Drangajökulssvæðið verða fyrir umtalsverðu raski þar sem stórt landsvæði fer undir uppistöðulón og náttúruperlum á borð við fossana Drynjanda og Rjúkanda verður fórnað,“ segir í tilkynningunni.

Textinn sem fólk skrifar undir er svohljóðandi:

„Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til að friðlýsa Drangajökulssvæðið í samræmi við tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Svæðið hefur meðal annars að geyma ein­stakar jarðminjar sem eru til­komn­ar vegna land­mót­un­ar jökla og hefur verndun þess mikið vísindalegt gildi að mati Náttúrufræðistofnunar.

Framkvæmdasvæði fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar er innan svæðisins sem um ræðir en samkvæmt tillögunni getur möguleg virkjun vatnsfalla haft talsverð áhrif á víðerni og ásýnd svæðisins og raskað ákveðnum jarðminjum.

Undirrituð vilja því að hætt verði við öll virkjanaáform á svæðinu og það friðlýst.“

mbl.is