Ólöglegur akstur veldur miklum spjöllum

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ítrekað hefur verið ekið utan …
Á meðfylgjandi mynd sést hvernig ítrekað hefur verið ekið utan vega til að sneiða fram hjá snjóskafli á veginum. Um er að ræða skemmdir sem mun verða tímafrekt að lagfæra og taka langan tíma að gróa. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun segir að akstur inn á friðland að Fjallabaki sé talsvert vandamál, en þrátt fyrir að akstursbann sé í gildi inn á svæðið láti margir ökumenn ekki segjast og skilji eftir sig miklar skemmdir á náttúru, ýmist óafturkræfar eða kostnaðarsamar og tímafrekar til viðgerðar.

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að jarðvegurinn sé viðkvæmur fyrir öllum akstri á þeim tíma þegar snjóa leysir og frost fer úr jarðvegi. „Það er erfitt fyrir okkur og lögreglu að hafa eftirlit alls staðar. Við biðlum þess vegna til fólks og ferðamanna að vera vakandi fyrir þessu og láta vita ef það verður vart við slíkan akstur eða skemmdarverk,“ segir Ólafur en brot gegn akstursbanni varða sektum eða varðhaldi.

Að sögn Ólafs er sumarið á hálendinu stutt og vaxtartími gróðurs að sama skapi stuttur. Því sé gróðurinn mjög viðkvæmur fyrir öllu raski og getur tekið hann mörg ár að endurnýja sig. „Stundum er landið meira tilbúið að taka á móti umferð, en í ár var vorið mjög snemma og því var umferð hleypt fyrr inn á svæði sem eru viðkvæm fyrir. Hluti hálendisins er opinn en annar lokaður vegna aðstæðna,“ segir Ólafur.

Segir hann marga ekki átta sig alveg á aðstæðum hverju sinni á hálendinu og séu ekki tilbúnir að snúa við eða gera aðrar ráðstafanir þegar lokun verður á vegi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert