Leita samráðs vegna afnáms uppreistar æru

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hvetur almenning til þess að senda …
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hvetur almenning til þess að senda inn umsagnir um frumvarp vegna afnáms uppreistar æru. mbl.is/Hari

Drög að frumvarpi um afnám uppreistar æru hefur verið birt á samráðsgátt sem ætluð er til eflingar samráði stjórnvalda og almennings. Á vef Stjórnarráðsins segir að frumvarpið hafi orðið til eftir að ráðuneytinu var falin heildarendurskoðun á því fyrirkomulagi sem felst í uppreist æru og skilyrðum um óflekkað mannorð.

„Um leið og mér barst fyrsta umsóknin um uppreist æru eftir að ég tók við sem dómsmálaráðherra í janúar 2017 tók ég ákvörðun um að stöðva sjálfkrafa afgreiðslu slíkra umsókna í dómsmálaráðuneytinu og hefja allsherjarendurskoðun laga hvað varðaði veitingu á uppreist æru,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í skriflegu svari við fyrirspurn blaðamanns um frumvarpið.

Úr höndum ráðherra

Í umræddum drögum er lagt til að horfið verði frá því fyrirkomulagi að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru. Einnig er lagt til að ekki verði óflekkað mannorð lengur skilyrði fyrir því að gegna tilteknum störfum eða kjörgengi til sveitarstjórnar. Þá eru skilyrði fyrir því að öðlast lögmannsréttindi og ýmis störf og embætti í réttarvörslukerfinu gerð strangari.

Sigríður segist bæði hafa viljað afnema heimild til veitingar uppreistar æru úr lögum, en um leið tryggja að þeir sem hafa afplánað refsidóma geti snúið aftur til sinna starfa.

„Því miður hlupu samstarfsflokkarnir í síðustu ríkisstjórn frá verkum um miðja nótt í september og Alþingi samþykkti lög sem afnámu heimildina til veitingar uppreistar æru án þess að fyrir lægi samhliða hvernig mætti tryggja réttindi dæmdra manna sem tekið hafa út refsingu sína til að snúa aftur til starfa sinna eða bjóða sig fram í kosningum,“ staðhæfir hún.

Umsagnir frá almenningi

Almenningur getur nú skoðað drögin og sent inn umsögn um frumvarpið í gegnum samráðsgáttina. Frestur til þess að skila inn umsögnum er 30. júlí, en að fresti loknum verða allar umsagnir gerðar opinberar.

„Ég á ekki von á öðru en að margir hafi skoðun á þessu máli og hvet til málefnalegra athugasemda við frumvarpið áður en ég bý um það til framlagningar á Alþingi í haust,“ segir Sigríður.

Talsverðar breytingar verða á mörgum lagabálkum verði frumvarpið samþykkt.
Talsverðar breytingar verða á mörgum lagabálkum verði frumvarpið samþykkt. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert