„Eru bókstaflega með lífið í höndunum“

Birta Jónsdóttir á von á sínu fyrsta barni.
Birta Jónsdóttir á von á sínu fyrsta barni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er óþægilegt og stressandi,“ segir Birta Jónsdóttir. Hún er gengin rúmlega 37 vikur með sitt fyrsta barn. Ástandið í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið veldur henni miklu hugarangri en um helgina dreymdi hana til að mynda hálfgerða martröð sem gerðist á Landspítalanum.

„Ég er nógu hrædd við að fæða og hef verið skíthrædd við fæðinguna frá því að ég komst að því að ég er ólétt. Það er mjög óþægilegt að vita af þessu ástandi. Ég skráði mig í jóga til að róa mig niður,“ segir Birta.

Móðir Birtu er hjúkrunarfræðingur og eftir að hafa ráðfært sig við hana hafði Birta ákveðið að fæða uppi á Akranesi. „Ég var búin að ákveða að fara þangað og leist mjög vel á en er svolítið stressuð núna að það verði troðið þar. Ég held samt að ég láti frekar reyna á það,“ segir Birta en viðbragðsáætlun á Landspítalanum gerir ráð fyrir því að einhverjar konur verði sendar á Akranes.

Birta er í 280 kvenna bumbuhóp á Facebook og segir að þar styðji allar ljósmæður þrátt fyrir að ástandið sé þeim erfitt. „Við viljum allar að þær fái mannsæmandi laun. Það er pirringur yfir stjórnvöldum og að þau leyfi ástandinu að verða svona,“ segir Birta og heldur áfram:

„Mér finnst þetta magnað. Þær eru bókstaflega með lífið í höndunum, líf barnsins míns, og þær fá ekki laun fyrir það. Ég er hissa á því hvernig svona langt háskólanám er ekki metið að verðleikum.“

Fæddi barnið standandi í draumi

Ljósmæður samþykktu um helgina yfirvinnubann sem tekur gildi um miðjan mánuðinn. Uppsagnir 12 ljósmæðra tóku gildi 1. júlí og aðfaranótt þess dags dreymdi Birtu að hún væri komin á spítalann til að fæða barnið. „Þegar þangað kom voru allir of uppteknir til að taka á móti mér. „Bíddu aðeins, bíddu aðeins. Við þurfum að klára smáræði fyrst,“ var það eina sem ég fékk að heyra. Á endanum fæddi ég barnið standandi á ganginum og tók á móti því sjálf. Þetta var hræðilegt. Fæðingin var ekkert erfið en ég var bara svo skíthrædd að ég vaknaði með dúndrandi hjartslátt.

Birta segist óttast mest að verða nánast hent út af fæðingardeildinni um leið og hún er búin að eiga. „Ég kann ekkert á barnið mitt. Þetta er rosalega ógnvekjandi. Þau segja í viðbragðsáætlun að eftir fæðingu verði fólk sent heim. Ég veit ekkert hvernig mér mun líða eftir fæðingu, veit ekkert við hverju ég á að búast eða hversu erfitt þetta verður. Ég er mest hrædd við að fá ekki tíma til að jafna mig og verða send beint heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert