Fyrst til að hljóta öll verðlaun deildarinnar

Hildur Hjörvar var á dögunum verðlaunuð fyrir bestu meistararitgerð sem skilað var við lagadeild Háskóla Íslands árið 2017 og varð Hildur þar með sú fyrsta í sögunni til að hljóta öll fern verðlaun sem veitt eru fyrir námsárangur við lagadeild. „Þetta er ofboðslega mikill heiður og skemmtilegt að hafa fundið nám sem ég hef svona mikinn áhuga á,“ segir Hildur.

Ritgerð Hildar var valin sú besta af þeim fimmtán ritgerðum sem hlutu ágætiseinkunn í fyrra, en nefndin sem mat ritgerðirnar var að þessu sinni skipuð Evu Halldórsdóttur f.h. Lögmanna Lækjargötu, Aðalheiði Jóhannsdóttur prófessor og forseta lagadeildar og Davíð Erni Sveinbjörnssyni aðjúnkt fyrir hönd lagadeildar Háskólans.

Systur Hildar taka við verðlaununum fyrir bestu meistararitgerðina fyrir hennar …
Systur Hildar taka við verðlaununum fyrir bestu meistararitgerðina fyrir hennar hönd. Ljósmynd/Aðsend

Vorið 2017 útskrifaðist Hildur frá lagadeild með hæstu einkunn á mag. jur. prófi í sögu deildarinnar eða með 9,48 í meðaleinkunn. Þá fékk Hildur einnig verðlaun fyrir bestan árangur á BA-prófi árið 2015 og fyrir besta árangur á fyrsta ári í BA-námi árið 2013.

Ritgerð Hildar fjallaði um ábyrgð ríkja á grundvelli Mannréttindasáttmála Evrópu á inngripi í friðhelgi einkalífs þeirra sem staddir eru utan yfirráðasvæðis þess ríkis sem beitir inngripum. 

Í ritgerðinni segist Hildur hafa komist að þeirri niðurstöðu að þau viðmið sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur mótað um það hvenær ríki geti borið ábyrgð á mannréttindum þeirra sem staddir eru utan landsvæðis þess, nái í grunninn ekki utan um brot gegn friðhelgi einkalífs sem framkvæmd eru með rafrænum hætti. Aftur á móti færði hún rök fyrir því að viðmið dómstólsins í þessum efnum hafi þróast á atviksbundinn hátt og að vísbendingar séu í nýlegum dómum um að framkvæmdin gæti þróast á þann hátt að rafræn inngrip í friðhelgi einkalífs veki skyldur samkvæmt sáttmálanum – sem sé mikilvægt svo að tæknivæðing grafi ekki undan friðhelgisvernd. 

Leiðbeinandi Hildar við skrif ritgerðarinnar var Róbert Spanó, prófessor og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Hildur segist hafa verið afar heppin að skrifa ritgerðina undir hans leiðsögn þar sem hann þekkti umfjöllunarefnið vel.

Frá opinberri vörn meistararitgerðar Hildar.
Frá opinberri vörn meistararitgerðar Hildar. Ljósmynd/Aðsend

Hildur starfar sem fulltrúi hjá LOGOS lögmannsþjónustu ásamt því sem hún sinnir lögfræðilegri ráðgjöf fyrir skjólstæðinga Samtakanna ‘78. Sem stendur er Hildur þó stödd í Frakklandi þar sem hún hefur síðan í mars verið í starfsnámi við Mannréttindadómstól Evrópu. Hildur segir það frábært að geta fengið innsýn inn í það hvernig dómstóllinn virkar en hún hefur mikinn áhuga á mannréttindum. „Mannréttindin hafa alltaf heillað og ég vona að ég fái tækifæri til að starfa áfram á því sviði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert