Gefa ferðamönnum fjölnota poka

Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki.
Plast er gríðarlega mengandi fyrir umhverfi og lífríki. AFP

Í tilefni af plastpokalausa deginum í dag ætla farfuglaheimilin á Íslandi að taka höndum saman og gefa gestum sínum fjölnota poka úr lífrænni bómull til þess að vekja athygli á mengun af völdum plasts. Plastpokalausi dagurinn er nú haldinn í níunda skiptið en markmiðið með deginum er að vekja athygli á skaðlegum áhrifum plastpoka og sýna fram á að auðvelt sé að sniðganga þá.

Þrjátíu farfuglaheimili víðs vegar um landið taka þátt í viðburðinum. Helena W. Óladóttir, gæða- og umhverfisstjóri farfuglaheimilanna, segir að hugmyndin hafi kviknað á plastpokalausa deginum á síðasta ári þegar gestum farfuglaheimilanna í Reykjavík voru gefnir fjölnota pokar við innritun. „Þetta vakti svo mikla lukku og skapaði svo miklar umræður að við ákváðum að gera þetta á öllum heimilum okkar um allt land í ár.“

Starfsmaður afhendir gesti farfuglaheimilis fjölnota burðarpoka.
Starfsmaður afhendir gesti farfuglaheimilis fjölnota burðarpoka. Ljósmynd/Aðsend

Helena segir að með því að gefa fjölnota poka vonist farfuglaheimilin til að auka vitund ferðamanna um plastpokanotkun á ferðalögum sínum um landið. „Þú tekur ekki endilega með þér [fjölnota] poka hingað þótt þú notir slíkan heima hjá þér.“

Um fimm milljarðar plastpoka eru notaðir í heiminum árlega, um það bil ein milljón poka á hverri mínútu samkvæmt heimasíðu plastpokalausa dagsins. Þá er meðalnotkunartími hvers poka um 25 mínútur til samanburðar við þau 100-500 ár sem það tekur fyrir hvern poka að brotna niður. Stærstur hluti notaðra poka endar svo í landfyllingum eða sem mengun á landi og í sjó þar sem þeir skaða umhverfi og dýralíf.

Yfirvöld víðs vegar um heiminn hafa brugðist við þeirri ógn sem umhverfinu stafar af plastpokum á síðustu árum. Notkun einnota plastpoka hefur dregist saman um rúm 80% í Bretlandi eftir að gjöld voru lögð á plastpoka í verslunum árið 2015. Í Kína hefur notkun dregist saman um 66% eftir að plastpokar voru bannaðir í verslunum og Frakkar stefna að því að minnka landfyllingu um helming fyrir árið 2025 með banni sínu á einnota plastvörur, þar á meðal plastpoka, sem innleitt var árið 2016.

Fjölnota burðarpoki sem Farfuglaheimilin gefa gestum sínum í dag.
Fjölnota burðarpoki sem Farfuglaheimilin gefa gestum sínum í dag. Ljósmynd/Aðsend

Hérlendis hafa margar verslanir brugðist við umræðunni um áhrif plastpokanotkunar með sölu á fjölnota burðarpokum sem og endurvinnanlegum pappírs- og maíspokum. Samkvæmt vef Bónus hefur verslunin selt um 250.000 fjölnota burðarpoka á síðustu árum en sá fjöldi jafngildir rúmlega 70% þjóðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert