Ferðamenn líklegir til að mæla með Íslandsför

Ferðamenn á Akureyri.
Ferðamenn á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Erlendir ferðamenn sem sækja Ísland heim eru mjög líklegir til að mæla með Íslandi sem áfangastað. Þetta kemur fram í niðurstöðum Ferðamannapúls Gallup í maímánuði. Líkur á meðmælum er sá þáttur sem mældist hæstur í maí, eða 89,5 stig af 100 mögulegum en heildaránægja mælist 83,5 stig af 100 mögulegum og hefur því verið óbreytt frá því í marsmánuði.

Ferðamannapúlsinn er metinn út frá fimm undirþáttum: Heildaránægju með Íslandsferðina, líkum á því að mæla með Íslandi sem áfangastað, skynjun á gestrisni Íslendinga, hvort ferðin hafi uppfyllt væntingar og hvort ferðin hafi verið peninganna virði. Mat ferðamanna á hvort ferðin hafi verið peninganna virði var sá þáttur sem mældist lægstur, eða 78 stig af 100 mögulegum. Pólverjar (87,4) eru ánægðastir með dvöl sína hér á landi í maímánuði, þar á eftir koma Finnar (87,1) en Ferðamannapúlsinn mælist lægstur hjá Dönum (77,2).

Ef horft er til ferðahátta stærstu ferðamannahópa landsins síðastliðna tólf mánuði eru það ferðamenn frá Kína og Spáni sem eru líklegastir til að heimsækja fleiri en einn landshluta, en 87% ferðamanna frá Kína og 84% ferðamanna frá Spáni heimsækja fleiri en einn landshluta. Á hinn endann eru það Bretar og Norðurlandabúar sem eru ólíklegastir til að heimsækja fleiri en einn landshluta, en minna en helmingur norskra ferðamanna heimsótti fleiri en einn landshluta.  Suðurland er sá landshluti utan höfuðborgarsvæðisins sem ferðamenn eru langlíklegastir til að heimsækja, en yfir helmingur erlendra ferðamanna heimsækir Suðurland meðan á Íslandsdvölinni stendur, segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert