Pirraðar út í stjórnvöld

Brynja og sonur hennar bíða spennt.
Brynja og sonur hennar bíða spennt. Ljósmynd/Aðsend

„Við fylgjumst mikið með en reynum að hafa ekki áhyggjur,“ segir Brynja Ýr Baugsdóttir en hún á von á öðru barni sínu á allra næstu dögum. Brynja verður komin 39 vikur á leið á morgun og segist því eiga von á barninu á hverri stundu.

„Ég stefni á að fæða á Landspítalanum en veit varla hvað er í boði. Það er verið að tala um að senda einhverjar á Akranes,“ segir Brynja en engin lausn virðist í sjónmáli í kjaradeilu ljósmæðra við ríkið sem hefur staðið mánuðum saman. „Óvissan er mikil.“

Brynja segist vera nokkuð róleg miðað við þær sem eigi von á sínu fyrsta barni á allra næstu dögum. „Ég sé að margar í bumbuhópnum á Facebook hafa miklar áhyggjur, sérstaklega konur sem eiga ekki barn. Ég veit svona nokkurn veginn hvað ég er að fara út í.“

Brynja og kærasti hennar, Stefán Guðberg Sigurjónsson.
Brynja og kærasti hennar, Stefán Guðberg Sigurjónsson. Ljósmynd/Aðsend

Tólf ljós­mæður létu af störf­um á sunnu­dag og eiga upp­sagn­ir fleiri ljós­mæðra að taka gildi um kom­andi mánaðamót. Þá hafa ljós­mæður boðað yf­ir­vinnu­bann sem mun hefjast um miðjan júlí­mánuð ef lausn finnst ekki á deil­unni.

Styðja ljósmæður heilshugar

„Núna vill Landspítalinn að maður fari heim sem fyrst og ég treysti mér í það ef allt gengur vel. Sumar treysta sér kannski ekki í það,“ segir Brynja.

Brynja og aðrar í bumbuhópnum á Facebook vonast til þess að ljósmæður standi á sínu og fái það sem þær eigi skilið. „Við styðjum ljósmæður að sjálfsögðu. Það ríkir gremja út í ríkisstjórnina og þá sem stjórna að láta þetta fara svona langt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert