Einar Darri lést úr ofneyslu lyfseðilskyldra lyfja

Andrea Ýr Arnarsdóttir, systir Einars Darra, og Óskar Vídalín, faðir …
Andrea Ýr Arnarsdóttir, systir Einars Darra, og Óskar Vídalín, faðir hans. K100/Rikka

„Einar Darri var 18 ára drengur í blóma lífsins, góður námsmaður, í vinnu, vinamargur og félagslyndur,“ segir Óskar Vídalín, faðir Einars Darra sem lést úr ofneyslu lyfseðilskyldra lyfja í lok maí. „Við vissum svo sem af því að hann hefði verið að fikta nokkrum mánuðum eftir að þetta gerist og var þar af leiðandi undir eftirliti hjá móður sinni, þar sem hann bjó.“ Að sögn Óskars hlustaði Einar Darri mikið á svokallaða trap-tónlist þar sem rappað er frjálslega um lyfjanotkun. „Maður var svolítið grænn fyrir því og hélt að þetta væru einhverjir straumar og svo myndi hann bara þroskast upp úr því.“

Fleiri í þessu en okkur grunaði

Eftir andlátið skoðaði fjölskyldan síma Einars Darra og komst að því að raunveruleikinn var svartari en hana hafði grunað. „Þarna var meiri neysla, kókaín, xanax og oxy. Síðustu tvær vikurnar er neyslan að aukast mjög mikið og leiðast út í fíkn,“ segir Óskar. „Þetta kom okkur algerlega að óvörum,“ segir Andrea Ýr Arnarsdóttir, systir Einars Darra. „Það er svolítið það sem maður sér núna að það er orðið svo breytt neyslumynstur og að þessi einkenni sem voru áður, þar sem þú droppaðir úr skóla, það er bara ekkert í dag. Þetta getur verið hver sem er og þetta er ekki bara eitthvert svona djammdæmi,“ segir hún um bróður sinn sem var langt frá því að vera staðalímynd fikniefnaneytanda.

Í síma Einars Darra var einnig að finna óhugnanleg skilaboð sem opnuðu nýjan og fjarlægan heim fyrir fjölskyldunni. „Hann var að fá SMS þar sem í voru tilboð á ýmsum lyfjum og í símanum voru líka öpp sem voru eins og sælgætisverslanir. Þetta er svo óhugnanlegt.“

Fyrrnefnd trap-tónlist nýtur vinsælda á Íslandi um þessar mundir og var meðal annars einn slíkur tónlistarmaður með opnunaratriði á Secret Solstice-hátíðinni núna í júní. Óskar segist tengja þessa tónlist við lyfjaneyslu í dag eftir það sem þau hafa gengið í gegnum og segist finna fyrir reiði en vilja samt sem áður finna henni annan farveg. „Við tókum þá ákvörðun saman fjölskyldan að við ætlum ekki að láta reiðina stjórna okkur heldur nálgast þetta af kærleika og ná til fólks með okkar boðskap.“

Fjölskylda og vinir Einars Darra hafa stofnað minningarsjóð í hans nafni sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda. „Okkur langar að byrja á því að opna umræðuna, og gerum það með vídeóinu sem við settum fram í gær og armböndunum,“ segir Andrea Ýr.  „Við ætlum að fara á útihátíðir og fá fólk til þess að tala um þetta og vonandi líta á armbandið og hugsa sig tvisvar um. Ég veit ég get ekki bjargað bróður mínum, því miður er hann dáinn, en mögulega getum við bjargað einhverjum öðrum og þó að það væri ekki nema einn þá er þar fjölskylda sem þarf ekki að líða eins og okkur líður núna.“

Þeir sem vilja leggja starfinu lið geta stutt við sjóðinn og fylgst með starfinu á Facebook-síðu sjóðsins.

Minningarsjóður Einars Darra

Reikningsnúmer: 0354-13-200240                                                             
Kennitala: 160370-5999

Viðtalið í heild má horfa á hér sem og fleiri brot úr dagskrá K100

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert