Í framsalsferli en ekki í farbanni

Kröfu um áframhaldandi farbann yfir manninum var hafnað á tveimur …
Kröfu um áframhaldandi farbann yfir manninum var hafnað á tveimur dómsstigum, en framsalsferli stendur enn yfir. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafnaði beiðni ríkissaksóknara um að pólskur karlmaður sæti áfram farbanni hér á landi. Pólsk yfirvöld hafa lagt fram beiðni um að fá manninn framseldan til heimalandsins vegna stórfelldra fíkniefnabrota, en meðferð framsalsbeiðninnar er enn ólokið.

Ríkissaksóknari fór fram á það fyrir héraðsdómi að manninum yrði gert að sæta farbanni allt til 14. desember næstkomandi, en hann var handtekinn 25. október síðastliðinn og hefur verið í farbanni nær allar götur síðan.

Pólsk yfirvöld höfðu þá áður sent íslenskum lögregluyfirvöldum beiðni um að handtaka manninn, en hann er eftirlýstur þar í landi fyrir brot sem geta varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt pólskum lögum, grunaður um vörslu, sölu og dreifingu á nokkru magni af fíkniefnum, þar á meðal einu kílói af kannabisefnum og talsverðu magni af amfetamíni. Maðurinn hefur sagst saklaus af meintum brotum.

Framsalsbeiðnin barst ríkissaksóknara 21. nóvember síðastliðinn, eða fyrir rúmum sjö mánuðum. Maðurinn andmælti framsalsbeiðninni og því hefur hún dregist á langinn og fær hún væntanlega meðferð fyrir dómstólum, samkvæmt bréfi sem ríkissaksóknari sendi frá sér til dómsmálaráðuneytisins 3. janúar 2018 og minnst er á í úrskurði héraðsdóms.

Ríkissaksóknari taldi nauðsynlegt að manninum yrði gert að sæta farbanni á meðan framsalsmál hans væri enn til meðferðar hjá stjórnvöldum, „enda megi ætla að hann muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn sem bíði hans í Póllandi.“

Ekki sýnt fram á að rannsókn sé í gangi

Héraðsdómari taldi hins vegar ekki unnt að fallast á áframhaldandi farbann yfir manninum, þar sem af bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins 3. janúar sl. verði ekki annað séð en að á þeim tímapunkti hafi rannsókn ríkissaksóknara verið lokið. Í bréfinu hafi þeirri afstöðu verið lýst að skilyrði framsalsbeiðninnar hafi verið uppfyllt og öll gögn málsins látin dómsmálaráðuneytinu í té.

„Að mati dómsins verður að gera ráð fyrir því að dómsmálaráðuneytið hafi á grundvelli þeirra valdheimilda sem ráðuneytið hefur samkvæmt lögum nr. 13/1984 svigrúm til að rannsaka mál frekar sjálft eða mæla fyrir um frekari rannsókn þess, ef tilefni þykir. Í máli þessu hefur hins vegar ekkert komið fram um slíka rannsókn annað en að málið sé til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu samkvæmt upplýsingum sækjanda í máli þessu,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

Þar segir einnig að beiting farbanns sé þvingunarráðstöfun sem ekki megi standa lengur en nauðsynlegt sé miðað við umfang og eðli máls.

„Þá er það einnig skilyrði fyrir beitingu farbanns að rannsókn verði haldið áfram án óréttlætanlegra tafa. Þar sem ekkert hefur verið lagt fram um rannsókn ráðuneytisins eða frekari meðferð þess á framsalsbeiðni varnaraðila er ekki unnt að fallast á kröfu sóknaraðila um áframhaldandi farbann yfir varnaraðila,“ segir í niðurlagi úrskurðar héraðsdóms.

Landsréttur tekur svo í sama streng og segir engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu dómsmálaráðuneytisins um meðferð málsins frá því að ríkissaksóknari lauk rannsókn sinni 3. janúar sl.

„Engin gögn hafa verið lögð fyrir Landsrétt um meðferð málsins hjá ráðuneytinu eftir þann tíma og engar upplýsingar liggja fyrir um stöðu málsins þar,“ segir í úrskurði Landsréttar, sem sem áður segir hafnaði farbannskröfu ríkissaksóknara.

Úrskurður Landsréttar í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert