Lögmaður dæmdur fyrir fjárdrátt

Ljósmynd/Aðsend

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær Guðmund Jónsson lögmann til 2 ára fangelsisvistar fyrir fjárdrátt í opinberu starfi og peningaþvætti sem hann framdi þegar hann var skipaður skiptastjóri dánarbús. Auk þess var hann dæmdur til þess að greiða dánarbúi mannsins skaðabætur sem nema þeirri fjárhæð sem hann dró að sér auk vaxta og málskostnaðar.

Guðmundur færði, með sex millifærslum, samtals tæpar 53,7 milljónir af reikningi dánarbúsins á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar LGJ ehf. Hann tók síðar út fjármunina af fjárvörslureikningnum, millifærði á eigin reikning og notaði til greiðslu persónulegra útgjalda og annarra útgjalda sem voru dánarbúinu óviðkomandi.

Brotin voru framin á tímabilinu 7. febrúar 2013 til 7. júní 2016. Meðal persónulegra útgjalda sem Guðmundur ráðstafaði fjármununum í voru símreikningar, innheimtukröfur Bandalags háskólamanna, skuldir til ríkissjóðs, stöðvunarbrotagjald og tryggingagjöld.

Guðmundur viðurkenndi brot sín skýlaust fyrir dómi. Hann bar fyrir sig að hafa á þeim tíma sem brotin voru framin átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða. Héraðsdómur mat til refsiþyngingar í málinu að um stórfellt brot í opinberu starfi væri að ræða sem næði yfir rúmlega þriggja ára tímabil. Fyrir svo alvarlegt brot í opinberu starfi taldi dómurinn ekki fært að skilorðsbinda refsingu Guðmundar að öllu leyti né að hluta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert