Ný 1.200 íbúða byggð í Skerjafirði

Byggðin í Skerjafirði samkvæmt rammaskipulaginu.
Byggðin í Skerjafirði samkvæmt rammaskipulaginu. Teikning/Ask Arkitektar.

Gert er ráð fyrir 1.200 íbúða byggð í Nýja-Skerjafirði, nýjum skóla, verslun og þjónustu, en borgarráð samþykkti nýtt rammaskipulag Skerjafjarðar á fundi sínum 28. júní síðastliðinn. Skipulagið tekur til landsvæðis við enda flugbrautar 06/24 sem hefur verið lokað, en flugbrautin hefur ýmist verið kölluð Neyðarbrautin eða Litla flugbrautin.

Svæðið sem um ræðir liggur að núverandi byggð í Skerjafirði og afmarkast af götunni Skeljanesi til vesturs en af öryggissvæði Reykjavíkurflugvallar til norðurs og austurs. Við suðurenda byggðarinnar er síðan strandlengja Skerjafjarðar.

Tölvuteiknuð mynd af strandlengjunni. Á vef Reykjavíkurborgar segir að myndirnar …
Tölvuteiknuð mynd af strandlengjunni. Á vef Reykjavíkurborgar segir að myndirnar sýni þó ekki lokaútlit bygginga á svæðinu. Tölvuteiknuð mynd/Ask arkitektar

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að gert sé ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum í rammaskipulaginu, og ríkulegum grænum almenningsrýmum sem hönnuð verða út frá sólaráttum og skjóli. „Hugað verður að félagslegri blöndun á svæðinu og hafa stúdentar og Bjarg, byggingarfélag verkalýðshreyfingarinnar, þegar fengið vilyrði fyrir lóðum í hinni nýju byggð,“ segir í tilkynningunni.

Góð aðstaða verður fyrir ýmiss konar sportbáta og seglskútur á svæðinu og er tiltekið að byggja eigi upp góða aðstöðu fyrir siglingaíþróttina á austurhluta strandarinnar, en í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir að öll strandlengjan á svæðinu sé sólrík og henti því vel til dvalar, útivistar, sjóbaða og siglinga.

Loks segir að hugsað sé fyrir tengingu hverfisins við áframhaldandi uppbyggingu í Vatnsmýri þegar flugvöllurinn víki þaðan og eins er gert ráð fyrir tengingu almenningssamgangna við Kársnes í Kópavogi með byggingu brúar yfir Fossvog fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert