Skiptar skoðanir á afnámi dönskukennslu

Íslendingar virðast ekki vera á sama máli um það hvort …
Íslendingar virðast ekki vera á sama máli um það hvort dönskukennslu eigi að halda áfram. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landsmenn virðast ekki sammála um það hvort hætta eigi dönskukennslu í grunnskólum og kenna annað tungumál í staðinn, ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar MMR. Þar kemur fram að 38 prósent svarenda séu andvíg breytingum á kennslunni, þar af 18 prósent mjög andvíg, en 38 prósent eru fylgjandi breytingum, þar af 21 prósent mjög fylgjandi. 24 prósents svarenda höfðu ekki skoðun á málinu.

Nokkur munur var á afstöðu svarenda eftir lýðfræðihópum, en 41 prósent kvenna sagðist andvígt hugmyndum um að hætta dönskukennslu í grunnskólum landsins, en aðeins 35 prósent karla.

Andstaða við breytingar á dönskukennslu virðist aukast eftir aldri en svarendur 68 ára og eldri voru líklegastir til að styðja við óbreytt fyrirkomulag, eða 52 prósent. Andstaða við breytingar á dönskukennslu jókst einnig með aukinni menntun en tæp 52 prósent háskólamenntaðra sögðust frekar eða mjög andvíg hugmyndum um breytingar á kennslu, samanborið við tæp 23 prósent þeirra sem lokið höfðu skólagöngu sinni eftir útskrift úr grunnskóla. Þá jókst andstaða gegn breytingum einnig með auknum heimilistekjum. Engan mun var að sjá á afstöðu svarenda eftir búsetu.

Stuðningsmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins eru ekki hrifnir af því að taka út dönskukennslu og kenna annað tungumál í staðinn. 63 prósent stuðningsmanna fyrrnefnda flokksins voru andvígir hugmyndinni og 57 prósent þess síðarnefnda. Stuðningsmenn Viðreisnar voru hrifnastir af hugmyndinni um breytingar á kennslunni eða 50 prósent. 45 prósent stuðningsmanna Miðflokks og 44 prósent stuðningsmanna Pírata voru sömu skoðunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert